Hinn norski Svein Harald Øygard, fráfarandi seðlabankastjóri, telur að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið Íslendingum á margan hátt gagnlegur fram að þessu. Sjóðurinn hafi til að mynda stutt stjórnvöld í að setja saman víðtæka efnahagsáætlun og halda henni gangandi.

„Það hefur kannski farið framhjá mér en ég hef ekki séð neina aðra kosti nefnda en efnahagsáætlun AGS," segir hann, þegar hann er inntur álits á AGS, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Hann segir að umræðan á Íslandi þurfi að snúast meira um framtíðina „í stað þess að kvarta og þrasa og ræða um fortíðina."

Hann kveðst enn fremur ekki hafa heyrt „fræðimenn eða hagsmunaaðila sem gagnrýna AGS benda á aðrar leiðir." Slíkt yrði þó gagnlegra og uppbyggilegra fyrir umræðuna.

Kerfið sé hlutlaust og ískalt

Fulltrúar Seðlabankans og AGS eiga, að sögn Øygards, fundi annað slagið og eiga í samskiptum vegna ýmissa þátta efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda. AGS hafi marga tæknilega ráðgjafa á sínum snærum. „Það er mikil þekking í Seðlabankanum en það kemur sér líka vel að geta reitt sig á AGS. Við erum stundum sammála og stundum ósammála. Á heildina litið eru samskiptin gjöful og gagnleg."

Øygard var tímabundið skipaður seðlabankastjóri í lok febrúar eftir að Alþingi hafði samþykkt ný lög um bankann. Már Guðmundsson tók við stöðunni í dag. Hann er skipaður til fimm ára.

Øygard telur sig hafa gegnt ákveðnu hlutverki, til dæmis þegar taka hafi þurft erfiðar ákvarðanir „því þá er mikilvægt að kerfið sé hlutlaust og ískalt," segir hann. „Færni og ákvarðanageta eiga að stýra fjármálakerfinu."

Øygard er  fæddur árið 1960 og hlaut meistarapróf í hagfræði frá Oslóar Háskóla árið 1985, með þjóðhagfræði sem aðalgrein. Frá árinu 1995 starfaði hann fyrir ráðgjafarfyrirtækið McKinsey&Company og frá 2005 til 2007 var hann framkvæmdastjóri þess í Noregi.

Áður en hann kom til starfa hjá McKinsey&Company var hann m.a. aðstoðarfjármálaráðherra Noregs í fjögur ár.

Ítarlegt viðtal er við Svein Harald Øygard í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið lengri útgáfu af viðtalinu hér.