Svein Harald Øygard, sem í morgun var skipaður seðlabankastjóri tímabundið af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra segir að engin ástæða sé til að efast um að bankinn njóti traust erlendis.

Þetta sagði Øygard á sínum fyrsta blaðamannafundi í Seðlabankanum í morgun aðspurður um hvort hann teldi að bankinn nyti þess trausts sem til þurfi á erlendri grundu.

„Það er engin ástæða til að ætla að bankinn njóti ekki trausts út á við,“ sagði Øygard en vildi ekki tjá sig um orð íslenskra stjórnmálamanna um að bankinn nyti ekki trausts út á við og því hefði verið nauðsynlegt að skipta um stjórn í bankanum.

Øygard vildi leggja mat á það sem þegar hefur verið gert í bankanum í samstarfi að Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) en sagði að áfram yrði unnið í nánu samstarfi við AGS í þeim tilgangi að styrkja krónuna, sem væri helsta forgangsverkefni bankans nú um mundir.