Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi og fyrrverandi oddviti framboðs Framsóknar og flugvallarvina fyrir síðustu kosningar, sem nú starfar sem óháður borgarfulltrúi hefur skráð eigið framboð til komandi borgarstjórnarkosningar.

Hefur hún skráð stjórnmálafélag fyrir framboðið sem hlotið hefur nafnið Borgin okkar – Reykjavík en hún segir annað sæti listans verða kynnt á miðvikudaginn og efstu 10 sætin á föstudag.

Sveinbjörg segir að pláss sé fyrir framboð sitt í núverandi stöðu í borginni, en um er að ræða 15. Framboðið til borgarstjórnar sem boðað hefur verið. Ástæðan segir hún að bæði Sjálfstæðisflokkurinn, og í raun Samfylkingin líka, hafi brugðist að vera það afl samtakamáttar stéttar með stéttar eins og flokkurinn hefur kennt sig við, meðan hin framboðin í borginni séu mörg hver einsmálsframboð með of takmarkaða skýrskotun.

„Framboð Borgarinnar okkar – Reykjavík er ætlað að styrkja einstaklingsframtakið sem og lítil og meðalstór fyrirtæki á meðan við grípum traustum höndum um þá sem minna mega sín,“ segir Sveinbjörn Birna.

Spurð hví hún hafi ekki farið fram með öðrum flokkum sem sumir hverjir virðist vera á svipaðri línu og hún, segir hún að þau vanti mörg hver þá dýpt og þekkingu á borgarmálunum sem hún hafi byggt upp á sínum tíma í borgarstjórn.

„Sú leið að hugsa út fyrir boxið í leit að lausnum fyrir borgarbúa náði ekki inn þegar á mæðir hjá einsmálsframboðunum,“ segir Sveinbjörg Birna sem aðspurð sagði Miðflokkinn ekki hafa komið til greina hjá sér. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma hætti hún í Framsóknarflokknum eftir að m.a. var samþykkt á hana vantraust í stjórn ungra Framsóknarmanna í borginni. Margir af fyrrum samstarfsmönnum hennar í Framsóknarflokknum fóru svo yfir í Miðflokkinn.

„ Flokkur fólksins vildi fá mig í oddvitasætið og ég var búin að vera að tala við þau frá því í ársbyrjun.“ segir Sveinbjörg Birna en á endanum hafi niðurstaðan verið að fara ekki með flokknum sem nú er leiddur af Kolbrúnu Baldursdóttur.

„Vandamálið var að Flokkur fólksins var ekki með nógu skýra sýn á borgarmálin og það vantaði upp á að þau vildu tala í lausnum.“