Oddviti lista Framsóknar og flugvallavina í borgarstjórn Reykjavíkur, Sveinbjörg Birna Sveinbjarnardóttir, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum.

Hún hyggst starfa áfram sem óháður borgarfulltrúi út kjörtímabilið að því er fram kemur í frétt RÚV. Sveinbjörg Birna hefur fengið á sig mikla gagnrýni, bæði utan flokks ein einnig innan hans, og sendi stjórn Sigrúnar, félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, frá sér vantraustsyfirlýsingu á borgarfulltrúann fyrr í sumar:

„Undanfarin misseri hefur Sveinbjörg Birna sem oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og Flugvallarvina, talað fyrir ákveðnum hugmyndum og þar með nýrri stefnu borgarstjórnarflokks Framsóknar og Flugvallarvina. Ungir Framsóknarmenn í Reykjavík telja að þær hugmyndir og sú stefna sem Sveinbjörg Birna talar fyrir, gangi í berhögg við grunnstefnu Framsóknarflokksins.

Hvað varðar meginstefnu borgarstjórnarflokks Framsóknar og Flugvallarvina. Að auka lóðaframboð, fjölga félagslegum íbúðum og gera námsgögn grunnskólanema gjaldfrjáls.  Vill stjórn ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, lýsa yfir fullum stuðningi við borgarstjórnarflokk Framsókar og Flugvallarvina. Ungir Framsóknarmenn í Reykjavík vona að málflutningur Sveinbjargar Birnu, verði ekki til þess að varpa skugga á það mikilvæga og góða starf sem borgarstjórnarflokkurinn hefur unnið að öðru leiti.

Stjórn ungra Framsóknarmanna í Reykjavík telur ástæðu til að minna á grunnstefnu flokksins og ekki verði gefin afsláttur af þeim grunngildum sem hún stendur fyrir.

  • II. Mannréttindi

Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

  • III. Jafnræði þegnanna

Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

  • IV. Mannauður

Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.“