Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar hefur nú samþykkt að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar og SÍBS að taka til skoðunar hagsmuna Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, vegna þess að hún var meðal þeirra sem var tengd aflandsfélögum á Bresku-Jómfrúareyjum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði áður um í dag hefur Júlíus Vífill Ingvarsson, einn þeirra sem var tengdur aflandsfélagi, sagt af sér sem borgarfulltrúi.

Sveinbjörg sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis að hún óski eftir tímabundnu leyfi frá störfum sínum sem borgarfulltrúi þar til rannsókn er lokið og niðurstaða liggur fyrir, verði henni ekki lokið áður en hún lýkur barneignarleyfi sínu sem er þann 13. júní næstkomandi.

Hér má lesa brot úr yfirlýsingu Sveinbjargar:

Í dag samþykkti forsætisnefnd Reykjavíkurborgar tillögu um að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar og siðanefnd Sambands Íslenskra sveitafélaga að taka til skoðunar hagsmunaskráningu borgarfulltrúa.  Ég styð slíka tillögu og mun aðstoða framangreinda aðila við þá vinnu í hvívetna.

Sem borgarfulltrúa ber mér fyrst og síðast skylda til að gæta hagsmuna borgarbúa. Ég vonast til að yfirferð um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa verði lokið áður en ég kem aftur til starfa úr fæðingarorlofi 13. júní nk. Verði yfirferðinni á hinn bóginn ekki lokið þá mun ég óska eftir tímabundnu leyfi frá störfum mínum sem borgarfulltrúi þar til niðurstaða liggur fyrir.

Ég hef tekið þessa ákvörðun til að borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina geti áfram veitt meirihluta borgarstjórnar nauðsynlegt aðhald. Fjárhagsstaða borgarinnar er sem kunnugt er slæm og viðvarandi tap á rekstri borgarinnar á sama tíma og dregið er úr þjónustu. Í mínum huga er þýðingarmest að kjörnir fulltrúar einbeiti sér að leysa slík mál, frekar en að eyða dýrmætum tíma í þref um skráningu mína á hagsmunaskrá.