Borgin okkar Reykjavík hélt blaðamannafund í dag á heimili oddvitans, þar sem kynnt voru 10 efstu sætin á lista framboðsins til borgarstjórnar í Reykjavík.

Meðal baráttumála framboðsins er að setja lágmarkskröfur í þekkingu barna úr grunnskólum í lestri, stærðfræði og ritun og banna notkun snjallsíma í grunnskólum borgarinnar. Auk þess að öryggi við umferðargötur nálægt grunnskólum verði tryggt með hraðamyndavélum og 30 km hámarkshraða.

Einnig vill framboðið auka lóðaframboð, og telur of áhættusamt að fjárfesta í borgarlínu. Jafnframt bendir framboðið á að Miklabraut geti ekki farið í stokk nærri því strax því það þurfi að fara í gegnum umhverfismat vegna áhrifa á grunnvatn.

Loks vill framboðið tryggja veru Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, en Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti framboðsins segir núverandi meirihluta reyna að bola vellinum í burtu, með tilheyrandi áhættu fyrir þá sem þurfa að nýta sjúkraflug til borgarinnar.

Efstu sætin eru þannig skipuð:

  • 1 Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi og lögfræðingur
  • 2 Edith Alvarsdóttir, þáttagerðarmaður
  • 3 Jóhannes Ómar Sigurðsson, viðskiptafræðingur Msc.
  • 4 Viktor Helgi Gizurarson, vélaverkfræðinemi í Háskóla Íslands
  • 5 Marta Bergman, fyrrverandi félagsmálastjóri
  • 6 Guðmundur Halldór Jóhannesson, pípulagningameistari
  • 7 Herdís T. Jóhannesdóttir, framkvæmdarstjóri
  • 8 Helga Nína Heimisdóttir, dagforeldri
  • 9 Kristbjörg Sveinbjörnsdóttir, hjúkrunarfræðingur í heimaþjónustu
  • 10 Stefanía Þórhildur Hauksdóttir, nemi í Menntaskólanum í Reykjavík.