Sveinbjörn Indriðason hefur verið ráðinn forstjóri Isavia og tekur strax við starfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia en ákvörðun um ráðninguna var tekin á stjórnarfundi í dag.

Allt síðan Björn Óli Hauksson hætti skyndilega sem forstjóri þann 17. apríl hefur Sveinbjörn gegnt stöðunni ásamt Elínu Árnadóttur aðstoðarforstjóra. Áður var Sveinbjörn fjármálastjóri fyrirtækisins. Forstjórastaðan var auglýst þann 2. maí en umsóknarfrestur rann út tíu dögum síðar eða 13. maí.

„Sveinbjörn hefur á síðustu mánuðum sýnt mikla leiðtogahæfileika sem starfandi forstjóri Isavia . Hann hefur mikla reynslu og þekkingu á fyrirtækinu – og hefur um leið slegið nýjan tón. Það eru fjölmargar áskoranir framundan og mikilvægt að stýrt sé af festu og ábyrgð. Við treystum Sveinbirni afar vel til þeirra verka. Um leið viljum við þakka þeim fjölmörgu hæfu umsækjendum sem sóttu um starfið og þann áhuga sem þeir sýndu,“  er haft eftir Orra Haukssyni, stjórnarformanni Isavia , í tilkynningunni."

Sveinbjörn segist þakka traustið. Starfið sé mjög spennandi og framundan margvísleg verkefni. „Hjá Isavia starfar margt hæfileikaríkt og gott starfsfólk sem ég hlakka til að vinna með áfram. Isavia er mikilvægt fyrirtæki fyrir íslenskt samfélag og brýnt að reksturinn sé stöðugur til framtíðar," er haft eftir honum í tilkynningunni.

Umsækjendur um starf forstjóra Isavia voru 26. Ráðningarstofan Intellecta var fengin til að annast ráðningarferlið.