Skiptastjóri þrotabús félagsins EK1923, áður heildverslunin Eggert Kristjánsson hf., lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson, mun þurfa að endurgreiða þrotabúinu allar þær greiðslur sem hann hefur ráðstafað til sjálfs síns úr eignum búsins að því er mbl.is greinir frá.

Er um að ræða 100 milljónir króna, sem komið hafa til vegna 40 þúsund króna tímagreiðslu sem Sveinn Andri reiknaði sér fyrir skiptastörf fyrir búið. Í heildina er skiptakostnaðurinn talinn vera um 130 milljónir króna.

Þó dómarinn taki ekki afstöðu til hæfilegrar þóknunar til skiptastjóra er vísað í viðmið um 20 þúsund króna greiðslu úr dómi Hæstaréttar frá árinu 2017. Ekki er hægt að áfrýja málinu til æðra dómstigs. Í apríl í fyrra voru eignir búsins 104 milljónir, en í nóvember verður úr því skorið hvort dómur héraðsdóms um 223 milljóna króna endurgreiðslu til félagsins verði staðfestir í Landsrétti.

Greiðslan skal fara fram eigi síðar en þegar aðfinnslufundur skiptabúsins fer fram, þann 22. sama mánaðar, þegar ákvörðun um framhald skiptanna verður tekin. Sveinn Andri hefur sagt að kröfuhafar sem hafi gert athugasemdir um meðferð þrotabúsins eigi litlar kröfur í félagið, en auk Stjörnunnar gerðu SS, MS og BBA Legal athugasemdir við starfshætti hans í upphafi. Síðan hafa Íslenska gámafélagið, nú Terra, DHL Express, Tandur, Reykjagarður, AG Dynamycs og 365 miðlar bæst í hópinn.

Málið er liður í langvarandi deilum Sveins Andra og Skúla Gunnars Sigfússonar, stofnanda Subway á Íslandi, en hann keypti heildverslunina og rak sem birgir fyrir rekstrarfélag veitingahúsakeðjuna, Stjörnuna.

Eftir gjaldþrotið höfðaði Sveinn Andri mál gegn Skúla og félögm tengdum honum, þar sem honum tókst að fá rift framsali á kröfum félagsins til Stjörnunnar á hendur ríkinu. Dæmdi Landsréttur Stjörnunni til að greiða þrotabúinu 15 milljónir í desember auk 2,3 milljóna skaðabætur vegna annars máls.

Í sama mánuði var annað félag í eigu Skúla, Sjöstjarnan ehf., dæmd til að greiða tvær greiðslur aftur til þrotabúsins, annars vegar upp á 223 milljónir króna og hins vegar upp á 21 milljón, en með vöxtum nema kröfurnar 400 milljónum króna. Landsréttur tekur eins og áður segir ákvörðun um þetta mál í nóvember.