Reykvískir lögmenn slf., lögmannsstofa Sveins Andra Sveinssonar, hefur krafist þess að félagið DataCell ehf. verði tekið til gjaldþrotaskipta. Ástæðan eru ógreiddir reikningar vegna vinnu hans fyrir félagið í máli þess og Sunshine Press Productions ehf. (SPP) gegn Valitor.

Vorið 2019 var Valitor dæmt til að greiða félögunum tveimur samtals 1.200 milljónir króna í skaðabætur fyrir að hafa lokað á greiðslugátt SPP en síðarnefnda félagið áframsendi fjármunina til WikiLeaks. Ítrustu kröfur höfðu hljóðað upp á níu milljarða króna auk vaxta. Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar en málinu síðar lokið með dómsátt sem var samhljóða dómsorði héraðsdóms.

Samkomulag var um að DataCell myndi fjármagna málareksturinn og að bótum yrði seinna meir skipt. Ekki hefur fengist upplýst hvernig skiptingin var. Kostnaðurinn reyndist nokkuð hár og komu fleiri aðilar að fjármögnuninni og voru mögulegar bætur veðsettar til fullnustu þeirrar greiðslu.

Með dómi héraðsdóms var Valitor dæmt til að greiða 14,5 milljónir króna í málskostnað en fyrir liggur að þóknun Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns félaganna tveggja, var að hluta til hagsmunatengd. Þegar hann var skipaður skiptastjóri þrotabús Wow air fór Arion banki, móðurfélag Valitor, meðal annars fram á það að Sveini Andra yrði vikið úr starfi sökum þess hve stóran hlut upphæðarinnar hann átti að fá. Mætti í raun jafna stöðu hans til aðila máls. Því var hafnað af dómstólum.

Krafan umdeild

Í samtali við Viðskiptablaðið í fyrra sagði Andreas Fink, eigandi DataCell, að á fyrstu stigum málsins hefði Sveinn Andri sent „hlægilega háa reikninga fyrir vinnu sem aldrei var innt af hendi.“ Kastaðist í kekki þeirra á milli og árið 2015, eftir að dómur Hæstaréttar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Valitor lá fyrir, afturkallaði Fink umboð lögmannsins til að flytja málið.

Í rúm þrjú ár eftir það sótti lögmaðurinn þing fyrir hönd DataCell þar til að nýr lögmaður mætti í nóvember 2018. Krafðist Valitor þess að málið yrði fellt niður hvað DataCell varðar þar sem Sveinn Andri hafði ekki haft umboð til þess að flytja málið fyrir hönd félagsins. Nokkur reikistefna varð sökum þessa í fyrirtöku málsins en í desember 2018 var bókað að Sveinn Andri hefði haft umboð til að varna því að réttarspjöll yrðu á málinu.

Valitor hafði krafist þess að málið yrði fellt niður vegna þessa en Landsréttur hafnaði því á grundvelli venju um að mæti lögmaður til þinghalds fyrir hönd aðila skuli litið svo á að hann hafi umboð til að gæta hagsmuna hans.

„Ég flutti málið fyrir tvo aðila. Annar hefur greitt mér, hinn ekki,“ segir Sveinn Andri við Viðskiptablaðið aðspurður um málið. Ekki fékkst uppgefið hve há upphæðin er sem hann telur sig eiga inni. DataCell telur á móti að það sé umdeilanlegt hvort lögmaðurinn eigi kröfu á hendur félaginu.