„Þetta er búið að vera mjög erfitt. Virði eigna hefur lækkað mikið hér heima og í Danmörku. Það er miður enda hefur það takmarkað mjög getu okkar til að gera nokkuð nema með samþykki lánardrottna,“ segir Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri fasteignafélagsins Vatn og land.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

ALMC, áður Straumur fjárfestingarbanki, hefur gjaldfellt öll lán sín til Vatns og lands vegna brostinna lánaskilmála. Gjaldfallnar afborganir lána nema samtals 12 milljörðum króna.

Viðræður við kröfuhafa félagsins standa nú yfir.

Fasteignafélagið var áður hluti af eignarhaldsfélögum undir hatti Samsonar, félagi feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thor Björgólfssonar. Það er nú að mestu í eigu þrotabús Samsonar. Félagið tapaði 468 milljónum króna á síðasta ári og er eigið féð neikvætt um tæpa 14 milljarða króna. Tapið skrifast að mestu á gengishrun á hlutabréfum danska fasteignafélagsins Sjælsö Gruppen auk þess sem virði annarra eigna hefur lækkað mikið.

Sveinn segir eignastöðu Vatns og lands óbreytta síðan um hrun, félagið eigi enn þær fasteignir í miðborginni sem skráðar voru á það. Á meðal eigna Vatns og lands er reitur í miðborginni þar sem fyrirhugað var að reisa nýtt hús undir Listaháskóla Íslands.