Sveinn Hannesson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar hf. frá og með næstu mánaðamótum. Sveinn tekur við starfinu af Benóný Ólafssyni, stofnanda og aðaleiganda fyrirtækisins.

Í fréttatilkynningu vegna ráðningarinnar segir að Sveinn hafi áður verið framkvæmda­stjóri Samtaka iðnaðarins og þar áður Félags íslenskra iðnrekenda frá ársbyrjun 1992 eða í tæp 16 ár.

Sveinn er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1974. Starfaði hjá Landssambandi iðnaðarmanna frá árinu 1975 til 1982 þegar hann var ráðinn forstöðumaður hagdeildar og síðar lánasviðs Iðnaðarbanka Íslands hf. Haustið 1986 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Lýsingar hf. sem þá var að hefja starfsemi og gegndi því starfi, þar til hann var ráðinn framkvæmdastjóri FÍI árið 1992. Sveinn hefur setið í stjórn Gámaþjónustunnar hf um margra ára hríð.

Sveinn er kvæntur Áslaugu Sigurðardóttur, hjúkrunarfræðingi og eiga þau fjórar dætur.