Eignastýringarfyrirtækið Arena Wealth Management í Lúxemborg hefur fengið til liðs við sig Svein Helgason sem áður var viðskiptastjóri hjá Nordea Lúxemborg. Sveinn starfaði síðustu 8 ár hjáeinkabankaþjónustu Nordea Banka Lúxemborg sem viðskiptastjóri. Árið 2006 fluttist hann til Lúxemborgar og starfaði hjá Landsbanka Lúxemborg.

Sveinn vann áður í eigin viðskiptum Arion Banka (og forvera hans) frá 2000 til ársloka 2005. Sveinn er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla íslands og hefur hartnær 20 ára reynslu af fjármálamörkuðum, þar af rúman áratug erlendis.

Kjartan Guðmundsson einn stofnenda Arena segir í fréttatilkynningu það „mikinn feng fyrir fyrirtækið að fá Svein um borð sem hefur mikla reynslu í einkabankaþjónustu og stýringu.  Á þessu ári höfum við verið að breikka hópinn og ráðið inn reynslumikla sérfræðinga frá UBS, Credit Suisse og nú síðast Nordea. Hópur Arena samanstendur í dag af sérfræðingum af 7 þjóðernum og er fyrirtækið í dag eitt af leiðandi óháðu eignastýringarfyrirtækjunum (independent asset manager) í Lúxemborg með áherslu á viðskiptavini frá Norðurlöndunum og Bretlandi.“