Sveinn Guðjónsson hefur hafið störf hjá norræna fjárfestingarbankanum Beringer Finance sem forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf bankans og á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfisvænnar tækni. Sveinn mun hafa aðsetur í Stokkhólmi og aðallega sinna verkefnum á Norðurlöndunum og Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Beringer Finance.

„Sveinn er frábær viðbót við okkar sterka hóp og við bjóðum hann velkominn til starfa. Hann hefur mikla reynslu af því að stýra stórum alþjóðlegum verkefnum og hjá Beringer Finance mun hann hjálpa til við að byggja upp teymi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og umhverfisvænnar tækni, auk þess að verða lykilmaður innan fyrirtækjaráðgjafar bankans” segir Aðalsteinn Jóhannsson, forstjóri Beringer Finance.

Á árunum 2003 til 2005 stjórnaði Sveinn fjárfestingarsjóði sem fjárfesti í hlutabréfum í orku- og iðnfyrirtækjum. Frá árinu 2005 hefur Sveinn unnið við fyrirtækjaráðgjöf, fyrst hjá Landsbankanum og síðan hjá Austur-Evrópskum fjárfestingarsjóðum. Frá árinu 2012 hefur Sveinn starfað sem verkefnisstjóri innan fyritækjaráðgjafar Arctica Finance., að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Ég hlakka til að taka þátt í starfi Beringer Finance, enda bankinn í lykilstöðu þegar kemur að alþjóðlegum verkefnum á sviði tækni og hugvits. Fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og umhverfisvænni tækni eru að vaxa gríðarlega á heimsvísu og ég hlakka til að leggja mitt að mörkum við að gera Beringer Finance leiðandi á því sviði” segir Sveinn Guðjónsson.

Sveinn hefur meistaragráðu í fjármálum frá CASS Business School í London.