Sveitafélagið Ölfus hefur svarað yfirlýsingu Lýsis frá því í fyrradag . Segir í tilkynningu sveitafélagsins að í yfirlýsingu Lýsis sé að finna rangfærslur sem sveitafélagið telur sig knúið til að svara.

Þar segir að um nokkra ára skeið hefur Lýsi hf starfrækt hausaþurrkun í Þorlákshöfn með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands. Starfsleyfi þessi hafa verið háð ákveðnum skilyrðum.

„Skilyrði þessi hefur fyrirtækið ekki uppfyllt en þrátt fyrir það hefur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands ítrekað endurnýjað starfsleyfi Lýsis hf þrátt fyrir athugasemdir frá íbúum sveitarfélagsins og bæjaryfirvöldum í Ölfusi,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir jafnframt: „Árið 2006 auglýsti Heilbrigðiseftirlit Suðurlands starfsleyfi Lýsis hf. með ákveðnum skilyrðum til 18 mánaða. Í skilyrðum þessum er m.a. krafist hreinsunarbúnaðar til að fyrirbyggja lyktarmengun og mengun í fráveituvatni.

Lýsi hf gerði athugasemdir við auglýsingu á starfsleyfinu og í framhaldi af því gaf Heilbrigðiseftirlit Suðurlands út starfsleyfi til 48 mánaða. Sveitarfélagið kærði útgáfu leyfisins til Umhverfisráðuneytisins sem féllst á kæru sveitarfélagsins og stytti leyfið niður í 18 mánuði.

Sveitarfélagið hefur ítrekað gert athugasemdir við starfsemi Lýsis hf. á svæðinu. Bæði hvað varðar lyktarmengun, mengun í fráveitu og notkun húsnæðis án leyfis. Umsókn Lýsis hf. um uppsetningu þvottaturna hefur verið tekin fyrir og afgreidd í skipulags- og byggingarnefnd svo og bæjarstjórn Ölfuss.

Fyrirtækinu hefur verið bent á að til þess að geta tekið erindið til efnislegrar afgreiðslu þarf að liggja fyrir deiliskipulag af svæðinu. Jafnframt var Lýsi hf. bent á heimild fyrirtækisins til að leggja fram tillögu að deiliskipulagi. Í stað þess kærði Lýsi hf. afgreiðslu bæjaryfirvalda í Ölfusi til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þar sem málið bíður efnismeðferðar.

Það er því alrangt sem kemur fram í fréttatilkynningu Lýsis hf. að fyrirtækið hafi ekki fengið leyfi til uppsetningar á mengunarvarnarbúnaði. Það rétta er að Lýsi hf. hefur kosið að fara með málið í lögfræðilegt þrátefli í stað þess að vinna af heilindum með bæjaryfirvöldum í Ölfusi til að leysa langvarandi lyktarmengun frá fyrirtækinu sem hefur staðið eðlilegri uppbyggingu í Þorlákshöfn fyrir þrifum og valdið íbúum ómældum óþægindum og skaða.“

Undir tilkynninguna ritar Ólafur Áki Ragnarsson , bæjarstjóri Ölfuss.