Sveitarfélagið Vogar hefur samið við Skýrr um alhliða lausn á sviði rekstrarþjónustu í upplýsingatækni.

Samningurinn kveður meðal annars á um innleiðingu á kerfisleigu, afritun gagna og VoIP-símalausn fyrir alla starfsemi sveitarfélagsins, þar með taldir eru bæjarskrifstofur, skóli, leikskóli, íþróttahús og frístundamiðstöð.

Sveitarfélagið mun jafnframt sækja til Skýrr tölvurekstrarþjónustu og umsjón með Microsoft-hugbúnaðarleyfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skýrr.

„Við vildum bæta vinnuaðstöðu starfsmanna og gera rekstur sveitarfélagsins enn skilvirkari, ásamt því að samræma alla þætti á sviði upplýsingatækni og auka stafrænt öryggi,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Voga í tilkynningunni.

„Við búumst við miklu af þessum nýja samstarfsaðila okkar og teljum að við séum þar í góðum höndum.“

Þá kemur fram að samhliða samningnum við Skýrr hefur sveitarfélagið ákveðið að stórefla upplýsingatækni í Stóru-Vogaskóla, sem er grunnskóli, með innleiðingu fartölvuvagna og bættu innraneti.

„Vogar er framsækið sveitarfélag með mikinn metnað á sviði upplýsingatækni, þannig að það er ákveðinn gæðastimpill á þjónustu okkar að hafa orðið fyrir valinu,“ segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr í tilkynningunni.

„Við hjá Skýrr höfum sótt út á markaðinn í auknum mæli með samtvinnun á kerfisleigu, VoIP-símalausn og tengdri tölvurekstrarþjónustu.“

Að sögn Þórólfs er kerfisleiga samningsbundin áskriftaþjónusta fyrir rekstur og hýsingu á hugbúnaði í miðlægu tölvuumhverfi Skýrr með ábyrgð á uppitíma, svartíma og öryggi.