Tekjur sveitarfélaga eru svipaðar í krónum talið á fjórða ársfjórðungi 2009 og 2008. Útgjöldin hafa hins vegar hækkað um 3,6%. Dregið hefur verulega úr fjárfestingu sveitarfélaga en önnur gjöld aukist um 9% milli ára. Þetta er gjörólíkt því sem gerst hefur í fjármálum ríkisins. Þar hafa heildarútgjöld lækkað um tæp 50% milli síðasta ársfjórðungs 2008 og 2009. Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands.

Launagreiðslur eru umfangsmesti útgjaldaliður sveitarfélaganna, eða 43,9% útgjaldanna, en 23,3 milljarðar króna voru greiddar í laun á fjórða ársfjórðungi 2009.

Útsvarstekjur skiluðu sveitarfélögunum 27 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2008, eða 55,5% tekna þeirra. Aðrir skattar skiluðu 7,5 milljörðum króna, fjárframlög frá ríkissjóði 5,1 milljarði og eignatekjur 9 milljörðum króna.

Samkvæmt áætlunum námu heildartekjur sveitarfélaganna 194,5 milljörðum króna árið 2009 samanborið við 193,4 milljarða króna árið 2008 og er hækkunin milli ára 0,6%. Útgjöldin jukust samkvæmt áætlunum um 2,4% milli ára og mældust um 211,3 milljarðar króna.