Þriðjungur sveitarfélaga, eða 21 sveitarfélag af 74, skuldar meira en 150 prósent af tekjum sínum. Verst er staðan í Sandgerði, sem skuldar 313 prósent af tekjum og Reykjanesbæ þar sem þetta hlutfall er 270 prósent. Þrátt fyrir þetta hefur orðið mikill bati í rekstri sveitarfélaga frá hruni á heildina litið að sögn Haralds Líndal Haraldssonar hagfræðings.

Haraldur var með erindi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, sem haldin var í byrjun mánaðarins. Samkvæmt nýjum fjármálareglum, sem tóku gildi í fyrra, er lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga megi ekki fara yfir 150 prósent og jöfnuður skuli vera í rekstri sveitarfélaga. Ákveðinn aðlögunartími er gefinn og hafa sveitarfélög allt að 10 ár til að laga reksturinn að þessummarkmiðum.

„Það sem er að gerast með nýjum fjármálareglum er að sveitarstjórnarmenn eru farnir að hugsa öðruvísi en þeir gerðu áður,“ segir Haraldur í samtali við Viðskiptablaðið. „Á árum áður trúðu margir sveitarstjórnarmenn því að það væri ekki hægt að hagræða í rekstri því það kostaði einfaldlega ákveðið mikið að reka sveitarfélag. Ef útgjöldin hækkuðu var lausnin að hækka skatta. Nú er mönnum hins vegar orðið ljóst að það er hægt að hagræða. Ég fullyrði að fjármálareglurnar muni leiða til þess að sveitarfélögin fari að framkvæma meira fyrir eigið fé og lækka skatta. Það mun kannski ekki gerast strax á næsta ári en ég held samt að við munum sjá þetta gerast á næstu árum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .