Tvöfalt biðlistakerfi og greiðslur til foreldra gætu verið leið til að ráða bót á biðlistum eftir leikskólaplássi. Þetta ritar Kristófer Már Maronsson, hagfræðinemi og tveggja barna faðir, í pistli á Rómi sem ber yfirskriftina Er hægt að leysa leikskólavandann strax í dag?

„Eitt af stærstu áhyggjuefnum verðandi foreldra er hvað gerist þegar að fæðingarorlofi lýkur. Hryllingssögur úr öllum áttum sækja á foreldra um að dagmömmupláss sé sjaldgæft en það sé líklegra að vinna í lottó en að fá leikskólapláss í kringum 1 árs aldurinn, þrátt fyrir að leikskóli sé hluti af grunnþjónustu sveitarfélaga,“ segir Kristófer.

Sem stendur séu um 740 börn á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavíkurborg þrátt fyrir að meirihlutinn hafi stefnt að því að fjölga plássum. Fögur fyrirheit hafi ekki gefið góða raun og fjöldi foreldra búi við tekjuleysi þar sem það kemst illa á atvinnumarkaðinn á ný.

Myndar ekki stofn til tekjuskatts

Árið 2006 var lögum um tekjuskatt breytt og bætt við þau málslið sem kveður á um að styrkir, sem foreldrar fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima fyrir, frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til að leikskólapláss fæst, teljist ekki til skattskyldra tekna. Ákvæðinu var samkvæmt greinargerð bætt við þar sem sveitarfélög höfðu hug á að ráðast í slíkt verkefni. Síðan þá hefur það lítið verið nýtt.

„Reykjavíkurborg gæti tekið upp á því strax í dag að bjóða 740 foreldrum mánaðarlega greiðslu til að brúa bilið frá fæðingarorlofi og þangað til að barnið þeirra fær leikskólapláss. Greiðslan gæti verið t.d. 257 þúsund krónur,“ segir Kristófer. Sú tala er ekki gripin úr lausu lofti heldur byggir hún á skýrslu borgarinnar um raunkostnað við hvert leikskólapláss. Sú er frá 2015 og er upphæðin uppreiknuð miðað við verðlagsþróun. Umræddur styrkur myndi ekki skerða aðrar bætur og því hækka ráðstöfunartekjur sem því nemur.

Að auki leggur Kristófer að teknir verði upp tvöfaldir biðlistar, svokallaðir A og B listar. A listinn væri í forgangi fyrir að fá pláss á leikskóla á meðan aðrir, sem gætu hugsað sér að vera lengur heima með barni sínu, færu á biðlista B. Aðstæður foreldra séu mismunandi, sumir hafa hug á að komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn aftur meðan aðrir hafa hug á að vera heima fyrir.

„Börn yrðutekin inn eftir aldri, miðað við ársfjórðunga svo að börn fædd í janúar – mars yrðu öll komin inn á leikskóla áður en að börn fædd í apríl – júní byrja að komast inn o.s.frv. Þegar að röðin kemur að þínu barni, þá er ekki hægt að neita leikskólaplássi til að halda styrknum, heldur fer barnið á leikskóla eða þú missir styrkinn,“ segir Kristófer.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kristófer reynir að leggja til lausnir á vandamálum með skrifum á Rómi en það gerði hann einnig fyrir nær sléttum fimm árum. Þá benti hann á að hár skyldulífeyrir reyndist mörgum þröskuldur inn á fasteignamarkaðinn og stakk upp á því að lífeyrisgreiðslur hvers mánaðar bærust beint inn á höfuðstól húsnæðislána fyrstu fimm árin frá lántöku vegna fyrstu fasteignakaupa. Hugmyndin var útfærð með aðgerð stjórnvalda sem fékk nafnið Fyrsta fasteign.