„Það blasir við að sveitarfélögin munu fara að koma sér aftur upp bæjarútgerðum í stórum stíl," segir Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Morgunblaðið í dag um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði frumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum.

Hann segir hækkun á veiðigjaldi vega að tekjuhluta smábátaúrgerða. Margir smábátasjómenn séu í erfiðum málum og ekki á þá stöðu bætandi.

„En það er stóra frumvarpið sem veldur mestum áhyggjum og ég er mjög ósáttur við það. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvað býr að baki, því að ekki mun smábátaútgerð eflast við þetta frumvarp. Það er ljóst að völd ráðherra verða alveg gríðarleg í sambandi við úthlutun," segir Arthúr við Morgunblaðið.