Minnst þrjú sveitarfélög og tvö byggðasamlög nýttu sér hlutabótaleið stjórnvalda til að bregðast við samdrætti vegna veirufaraldursins.

Þetta er meðal þess sem má lesa úr lista sem Vinnumálastofnun birti í kvöld en sá sýnir lista yfir aðila sem lækkuðu starfshlutfall starfsfólks. Á listanum má finna aðila sem settu sex eða fleiri á úrræðið en ekki kemur fram hve margir frá hverju fyrirtæki voru lækkaðir í starfshlutfalli.

Sveitarfélögin þrjú eru Dalvíkurbyggð, Strandabyggð og Skútustaðahreppur. Þá gerðu bæði Sorpa bs. og Strætó bs. slíkt hið sama.

Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að ríkissjóð hafi verið að finna á listanum og að fleiri en tíu starfsmenn hjá hinu opinbera hafi verið á listanum. Í frumvarpi um þátttöku ríkisins í greiðslu hluta uppsagnarfrests er girt fyrir það að stjórnvöld, byggðasamlög, sveitarfélög og opinber hlutafélög geti nýtt sér úrræðið.

Listann má sjá í heild sinni með því að smella hér .