„Við höfum ekki öruggt mat á því hvað er að gerast í genginu. En okkur sýnist að tiltölulega veikt gengi krónunnar á öllu síðasta ári tengist því að þrátt fyrir undirliggjandi viðskiptaafgang sem ætti að styðja við gengi krónunnar þá fáum við á móti útstreymi á fjármagnsjöfnuði,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Hann benti á það á fundi í Seðlabankanum sem er nýlokið að sveitarfélög hafi verið að greiða niður erlendar skuldir í töluverðum mæli því þau geti ekki endurfjármagnað skuldir sínar. Þótt það búi í haginn fyrir framtíðina og bæti stöðu þjóðarbúsins þá veiki það krónuna.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, bætti því við að opinber fyrirtæki eigi jafnframt hlut að máli, Orkuveitan hafi greitt niður 14,5 milljarða af erlendum lánum. Hann spurði í framhaldinu hvort Seðlabankinn hafi lagt mat á það hvenær niðurgreiðslur sveitarfélaga og opinberra aðila hætti að ýta gengi krónunnar niður.

Gengið mun ekki styrkjast í bráð

Már viðurkenndi að slíkt mat liggi ekki fyrir. „Við höfum hugsað okkur að reyna að fá betra mat á þessum þáttum og öðrum sem hafa haft áhrif á greiðslujöfnuð og gengið. Við höfum kortlagt þetta nokkuð nákvæmlega og búumst við að myndin liggi fyrir eftir nokkrar vikur. En mín tilfinning er sú að við munum ekki sjá fyrir endann á þessu á næstu mánuðum.“