*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 21. febrúar 2021 11:43

Sveitarfélög séu ekki vogunarsjóðir

Framkvæmdastjóri Lánasjóðs Sveitarfélaga segir það ekki hlutverk sveitarfélaga að spila á skuldabréfamarkaði.

Júlíus Þór Halldórsson
„Það er ákveðin íþrótt, það er fólk í því, en er það hlutverk sveitarfélags?“ spyr Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs Sveitarfélaga, um möguleikann á að sveitarfélög fjármagni langtímafjárfestingar með skammtímalánum með langan greiðsluferil.
Haraldur Guðjónsson

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, segir markaðsálag skuldabréfa Reykjavíkurborgar ofan á ríkisvexti kannski vera í hærra lagi, „en ekkert afleitt“.

Fræðilega séð eigi lengd lána að jafngilda væntum líftíma þeirrar fjárfestingar sem þeim er ætlað að fjármagna. Hvorki sveitarfélög né aðrir ættu að ráðast í fjárfestingar sem ekki borgi sig miðað við slíka lántöku.

Að því sögðu verði þó að hafa í huga að sveitarfélög séu stórar stofnanir með flókna fjármagnsskipan, sem skoða þurfi í heildstæðu samhengi.

Kýldur í magann
„Kúlulán eru allt í lagi ef þú ert með mörg og dreifir gjalddögunum jafnt. Ef þú hins vegar endurfjármagnar allar þínar skuldir með stöku 20 ára kúluláni, þá getur verið svolítið leiðinlegt hjá þér þarna síðasta árið. Ef það vill svo til að vextir eru mjög háir þá stundina þá ertu bara kýldur í magann.“

Séu sveitarfélög hins vegar farin að eygja vaxtasparnað með stuttri fjármögnun með langan greiðsluferil, sem endurnýja þurfi reglulega, sé það fjárfestingarákvörðuninni og fjármögnun hennar sem slíkri óviðkomandi.

„Þá ættirðu kannski bara að stofna vogunarsjóð og fara að leika þér að vöxtum. Það er ákveðin íþrótt, það er fólk í því, en er það hlutverk sveitarfélags?“ spyr Óttar. „Hvert verður vaxtaumhverfið eftir 5 ár? Hver verður peningastefnan? Hver verður seðlabankastjóri?“

Vissulega sé þó eðlilegt alla jafna að stuttir vextir séu lægri en þeir löngu. Svo megi deila um hver munurinn á að vera. „Undanfarna áratugi hefur vaxtaferillinn bara verið marflatur. Núna er hann loks orðinn eðlilega upphallandi.“

Horfa til fjölbreyttari útgáfu en áður
Þótt enn sé verið að undirbúa árið hjá fjármálasviði Reykjavíkurborgar segist Halldóra Káradóttir sviðsstjóri klárlega sjá fyrir sér að hafa meiri breidd í lengd útgefinna skuldabréfa en áður hefur verið. Á fimmtudag veitti Borgarráð sviðinu heimid til 2-5 ára fjármögnunar.

„Við sjáum alveg kostina við það og erum að hugsa um alla valkosti inn í þetta ár. Við viljum hafa val á að fjármagna okkur til styttri tíma, mögulega með einhverjum styttri bréfum og sjáum fyrir okkur meiri blöndu núna, þótt við verðum náttúrulega eitthvað í þessum löngu flokkum.“

Aðstæður borgarinnar í ár eru nokkuð frábrugðnar því sem áður hefur þekkst. Ekki aðeins er umfang fyrirhugaðrar lántöku mun meira en áður, heldur mun borgin fjármagna eigin rekstur með henni auk langtímafjárfestinga.

„Áætlanir okkar gera ráð fyrir rekstrarhalla á þessu ári. Við erum því að horfa til þess að fjármagna slíkt ekki með löngum bréfum. Hingað til höfum við nánast eingöngu verið í löngum bréfum, enda verið að fjármagna með þeim fjárfestingar. Við erum þá að fjárfesta í skólum, götum og annars konar innviðum sem eru hugsaðir til langs tíma.“ Um 30-35% fjárfestinga síðustu ára hafi verið fjármögnuð með skuldabréfaútgáfu, restin hafi komið frá handbæru fé.

Ekki þótt fýsilegur kostur
Aðspurð segir Halldóra það ekki hafa þótt fýsilegan kost hingað til að gefa út styttri bréf með langan greiðsluferil í leit að lægri vöxtum án aukinnar greiðslubyrði. Til þess hafi endurfjármögnunaráhættan einfaldlega þótt vera of mikil. Íslenskur fjármálamarkaður hefur enda átt það til að vera nokkuð stormasamur, en síðustu ár hefur loks tekið að lægja örlítið.

Hún segir því ekkert útilokað í þeim efnum þegar fram líða stundir. „Það er þá tækifæri til að fara að horfa meira til þess og skoða fleiri valkosti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.