Sveitarfélögin eiga ekki að taka ákvarðanir um útgjöld, sem aðrir eigi að bera ábyrgð á síðar. Þetta kemur fram í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins (SA), sem birtur er í tilefni af því að á fjármálaráðstefnu sveitarélaga kom fram krafa um auknar skatttekjur. Í dag kallaði síðan bæjarstjórn Garðabæjar eftir því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga „til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin."

Í pistlinum á vef SA segir að á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga hafi komið fram að á milli áranna 2013 og 2014 hafi tekjur sveitarsjóðanna (A-hluta) aukist um 12 milljarða króna en útgjöldin um 24 milljarða.

„Aukinn launakostnaður skýrir stærstan hluta en laun og tengd gjöld hækkuðu milli ára um ríflega 17 milljarða króna sem samsvarar 15,1% hækkun launagreiðsla milli ára," segir í pistlinum. „Á sama tíma jukust tekjurnar um 6,3%.

Ástæða aukins launakostnaðar eru nýir kjarasamningar sveitarfélaganna við starfsmenn sína. Á sama tíma og samið var á almenna vinnumarkaðnum um 2,8% hækkun launa þá sömdu sveitarfélögin um 8 – 10% launahækkanir við Bandalag háskólamanna og um 30% launahækkanir við kennara. Á sama tíma var unnið að endurskoðun starfsmats hjá sveitarfélögunum sem hafði í för með sér allt að 4% hækkun launa og á vef sambandsins kemur fram að  „launakostnaðurinn 2014 er því í raun umfram það sem fram kemur í ársreikningum þess árs“. Hlutfall launakostnaðar af heildartekjum sveitarfélaga á tímabilinu 2002 – 2014 var tæp 54% en 55,4% á árinu 2014.

Það verður að krefjast þess af sveitarfélögunum að þau sníði sér stakk eftir vexti og taki ekki ákvarðanir um útgjöld sem aðrir eigi að bera ábyrgð á síðar. Þau verða eins og aðrir að sýna ábyrgð og gæta aðhalds. Laun og launatengd gjöld eru langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna og afkoma þeirra ræðst því að verulegu leyti af þeim kjarasamningum sem þau gera við starfsmenn sína.

Hagkerfið hefur vaxið hratt undanfarin misseri og því er spáð að svo verði áfram. Það þýðir að umsvif aukast, fjárfestingar vaxa og störfum fjölgar. Laun hækka einnig á almennum markaði. Allt gerir þetta að verkum að tekjur sveitarfélaganna af útsvarsgreiðslum vaxa jafnt og þétt. Fasteignamat hækkar og fasteignagjöldin líka.

Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga rakti á fjármálaráðstefnunni fjölmargar hugmyndir um hvernig sveitarfélögin geti fengið auknar skatttekjur. Það er þó fátt sem bendir til þess að þau búi við tekjuvanda. Vandi þeirra liggur fyrst og fremst í of háum rekstrarkostnaði og óábyrgum kjarasamningum.

Sérstaka athygli í tillögum sambandsins vakti hugmynd um nýjan skatt á „lönd fyrir greftrunarstaði manna“ eins og það er orðað. Um leið vaknar spurningin um á hverja skatturinn verði lagður en ekki síður hvernig staðið verði að innheimtunni."