Sveitafélögin geta ekkert annað gert en að draga úr greiðslu húsaleigubóta um 556 milljónir króna á næsta ári. Þetta segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði í erindi sem hún flutti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag.

„Fyrir liggur að gert er ráð fyrir því að aukin útgjöld ríkisins vegna meiri eftirspurnar eftir húsaleigubótum verði að öðru óbreyttu 556 m.kr á árinu 2010. Í fjárlagafrumvarpinu er gengið út frá því sem aðhaldsráðstöfun að í nýju samkomulagi ríkis og sveitarfélaga verði gerðar breytingar á kerfinu sem dragi úr útgjöldum við það sem nemur áætluðum umframútgjöldum ársins 2010.

Því er ætlað að framlög ríkisins til húsaleigubóta dragist saman um 556 m.kr. á næsta ári frá því sem greitt er til kerfisins á árinu 2010.   Þetta er niðurskurður sem nemur ríflega 20%.

Sveitarfélögin geta ekkert annað gert en að draga samsvarandi úr greiðslu húsaleigubóta og ljóst er að endurskoða verður og breyta meginforsendum húsaleigubótakerfisins í heild sinni miðað við þetta.  Um leið og þetta er sett fram koma fram upplýsingar um að 80% þeirra sem þiggja húsaleigubætur almennar og sérstakar hafa 2 milljónir eða minna á ári í árstekjur.   Þetta er verulega vanhugsað útspil gagnvart þeim hópi sem á hvað erfiðast um þessar mundir" sagði Aldís á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í dag.