Ríkisstuðningur til sveitarfélaga á næsta ári mun nema 4,8 milljörðum króna í heildina samkvæmt viljayfirlýsingu vegna versnandi stöðu í kjölfar áhrifa kórónuveirufaraldursins. Samhliða var gert samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaganna sem felur í sér að stöðva hækkun skulda hins opinbera fyrir árslok 2025.

Jafnframt er gert ráð fyrir að ríki og sveitarfélög muni vinna saman að fjölda tilgreindra verkefna, þar á meðal heildarendurskoðun á tekjustofnun sveitarfélaga, og á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, auk endurmats á útgjöldum vegna hjúkrunarþjónutu og annarrar þjónustu við aldraða.

Af þeim tæpum 5 milljörðum króna sem ætlað er að veita sveitarfélögum svokallað fjárhagslega viðspyrnu eiga 3.305 milljónir að koma sem viðbótarframlag, en heildarstuðningurinn muni nema 4.805 milljónum króna.

„Auk þess verður heimilað að nýta 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins,“ segir auk þess á vef stjórnarráðsins þó líklega megi telja að sú upphæð sé inn í fyrrnefndri tölu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun er stefnt að 264 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári, samhliða sölu ríkiseigna, lækkun heildarframlaga til fjölmiðla, þar á meðal RÚV.

Skuldir sveitarfélaga geti farið í 8,3% af VLF

Í fjármálaáætlun til ársins 2025 er gert ráð fyrir því að uppsafnaður halli verði á rekstri ríkissjóðs sem nemi 900 milljónum króna, en jafnframt að skuldasöfnun hætti fyrir árslok 2025, sem samkvæmt samkomulaginu nú nær einnig til sveitarfélaganna.

Á vef stjórnarráðsins segir að meginmarkmið fjármálaáætlunarinnar sé að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2025.

Í samkomulaginu nú er gert ráð fyrir að heildarafkoma A hluta rekstrar sveitarfélaganna muni versna verulega, og reiknað með að afkoman verði neikvæð um 1,1% af VLF bæði í ár og næsta ári, en það hlutfall lækki í 0,8% árið 2022.

Jafnframt að skuldir A-hluta sveitarfélaganna geti farið í 7,0% af landsframleiðslu árið 2020, og 8,3% árið 2022, en grípa þurfi til þess sem kallað eru afkomubætandi ráðstafanir til að skuldirnar haldi ekki áfram að vaxa.