Útsvarstekjur sveitarfélaga fyrir árið 2012 nema 139,2 milljörðum króna sem er 6,7% aukning á milli ára, að því er kemur fram á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Útsvar reiknast af öllum skattstofninum, en ríkissjóður greiðir hluta útsvarsins í formi ónýtts persónuafsláttar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Sú fjárhæð nemur rúmum 10 milljörðum króna og hækkar um 500 milljónir frá í fyrra.

Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2013 vegna tekna árið 2012 nemur 932 milljörðum og hefur aukist um 6,4% frá fyrra ári. Skattstofnsins var aflað af tæplega 240 þúsund einstaklingum og fjölgaði um 0,9% í þeim hópi eða um rúmlega tvö þúsund einstaklinga.