Heildarkostnaður sumarátaks Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytis fyrir námsmenn og atvinnuleitendur er 356 milljónir króna. Af þeirri upphæð renna 250 milljónir króna frá Atvinnuleysistryggingasjóði og 106 milljónir króna koma úr ríkissjóði. Alls voru 900 störf í boði þar af 500 á vegum stofnana ríkisins og 400 á vegum sveitarfélaga.

Samkvæmt Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar, fá ríkisstofnanir 235 þúsund á mánuði fyrir hvern starfsmann til að standa straum af launakostnaði. Ríkisstofnanir þurfa því ekki að gera ráð fyrir launakostnaði starfsmannanna í fjárhagsáætlun sinni. „Sveitarfélögin fá 150 þúsund krónur á mánuði fyrir hvern starfsmann og þurfa því að standa straum af viðbótarkostnaði sem fellur til svo launin séu í samræmi við kjarasamninga. Sá kostnaður getur verið á bilinu 80-100 þúsund krónur,“ segir Gissur.

Yfirbókun starfa

Þetta er annað árið sem Vinnumálastofnun og Velferðarráðuneytið standa fyrir þessu sumarátaki. Í fyrra gengu ekki öll störfin út en nú í ár er talið að nýtingin sé nálægt 100%. Þó segir Gissur eftirspurnina svipaða milli ára. „Við vorum með fjármuni til að ráða í 850 störf. Þar sem störfin gengu ekki öll út í fyrra þá yfirbókuðum við okkur í ár. Við úthlutuðum 900 störfum í trausti þess að þau yrðu ekki fleiri en 850,“ segir Gissur. Hann telur þó að störfin verði aðeins fleiri en 850.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.