Samband íslenskra sveitarfélaga vill að lögum verði breytt þannig að sveitarfélögum sé send skattskrá og álagningarskrá rafrænt. Fallið var frá birtingu álagningarskrár á þessu ári með lagabreytingu vegna smithættu sem talið var að skapaðist við að fjöldi fólks mætti í húsakynni Skattsins og fletti álagningarskrám. Það varð meðal annars til þess að fjölmiðlar birtu ekki tekjublöð upp úr álagningarskrám líkt og venja hefur verið.

Samkvæmt nýju frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á ekki heldur að birta álagningarskrá eða skattskrá á næsta ári. Sambandið segir það hafa valdið sveitarfélögum talsverðum vandræðum að hafa ekki aðgang að álagningarskrá. Þau hafi fylgist með útsvarstekjum sínum og ofáætlunum í gegnum skrána. Sveitarfélög hafi sama rétt og gjaldendur til að kæra álagningu ríkisskattstjóra en geti það ekki sé skráin ekki birt. Því vilja þau rafrænan aðgang að skránum.