Auka þarf framleiðni, útflutning og fjölga störfum í alþjóðlegum rekstri verulega á næstu 20 árum eigi að vera mögulegt að gera Ísland samkeppnishæft og efnahagslífið blómlegt á næstu árum. Þetta er mat Sven Smit, framkvæmdastjóra hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company. Smit var gestur á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs í dag. Þar fór hann yfir það hvað þarf til að koma hagkerfinu í gang svo hagvöxtur verði hér verulegur. Hann lagði áherslu á að stjórnvöld leggi fram áætlun hvert skuli stefna og eftir hverju eigi að fara.

Smit taldi til að nokkrar leiðir séu færar, hægt væri að keyra hagkerfið hægar eða hraðar. Verði stefnt að því að tvöfalda útflutning á næstu 70 árum verði hann hægari en ódýrari þar sem uppbygging í kringum vöxtinn yrði minni. Á hinn bóginn megi ætla að hagvöxtur verði hér minni en í nágrannaríkjunum. Hins vegar væri hægt að keyra hann hratt áfram, s.s. með því að tvöfalda verðmæti og magn útflutnings á næstu 18 árum.

Á meðal þess sem Smit mælti með er stofnun klasa fyrirtækja í Reykjavík utan um eina af kjarnastarfsemi landsins, s.s. fisk eða endurnýjanlega orku, í þjónustugeiranum, lyfjageiranum eða í lækningageiranum.