Sjónvarpsmaðurinn og leikarinn Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, hefur hafið innflutning á léttvíni frá Suður-Afríku. Víninnflutningurinn fer fram í gegnum fyrirtækið Wine & Stuff sem Sveppi setti á fót ásamt konu sinni Írisi Ösp Bergþórsdóttur og vinahjónum þeirra Ólafi Gylfasyni og Ernu M. Arnarsdóttur.

„Mér finnst mjög gaman að drekka rauðvín og með aldrinum hefur maður farið að pæla meira í vínum. Mér finnst mjög töff að vera svona rauðvínskall sem veit eitthvað um rauðvín og getur mætt með flösku á staðinn og verið aðalkallinn. Mig langar sjálfur að vera einn slíkur en á ennþá nokkuð langt í land með að ná því takmarki, en þetta kemur hægt og bítandi," segir Sveppi.

Sveppi segir að fyrrnefnd vinahjón hans og Írisar hafi oft ferðast til Cape Town í Suður-Afríku og þar hafi þau komist í kynni við víngerðarmanninn Pieter Walser.

„Pieter á og rekur víngerðina The BLANKbottle Winery. Hann nálgast víngerð ólíkt öllum öðrum. Nálgun hans er örlítið pönkuð og fer í raun gegn öllum reglunum í bókinni. Hann var orðinn þreyttur á öllum látalátunum í kringum víngerð og vínsmökkun og hefur því farið sínar eigin leiðir. Hann vill engar merkingar á flöskunum sínum sem gefa til kynna hvert innihaldið er, því ef fólki finnst vínið gott þá skiptir innihaldið ekki máli. Þessi nálgun hans heillaði okkur, auk þess sem okkur þykir vínin sem hann býr til mjög góð."

Eftir að hugmyndin að víninnflutningnum kviknaði innan vinahópsins ákváðu þau að halda til Suður-Afríku til að kynnast BLANKbottle víngerðinni betur. „Við fengum að fylgjast með framleiðslunni í nokkra daga, sem var alveg frábær upplifun. Þetta er lítil framleiðsla og allt er handgert og engin færibandavinna í gangi þarna. Pieter er bara með nokkra starfsmenn í vinnu og það er mikill sjarmi yfir þessu öllu saman," segir Sveppi.

„Tómt vesen" að komast í Vínbúðina

Eftir heimsóknina var ekki aftur snúið og fór Wine & Stuff teymið á fullt í að undirbúa víninnflutninginn. Fyrir skömmu rötuðu svo tvö vín frá BLANKbottle í hillur Vínbúðarinnar. Annars vegar rauðvínið Master of None og hvítvínið Moment of Silence. Þeir sem hafa gengið í gegnum það að koma vörum í sölu hjá Vínbúðinni hafa kynnst því hve mikil vinna það getur verið eða „tómt vesen" eins og Sveppi orðar það. „En þetta hófst að lokum og virkilega ánægjulegt að vínin séu komin í Vínbúðina. Nú vonumst við bara til að salan nái góðu flugi til að þau haldist í sölu. Pieter framleiðir fullt af fleiri tegundum sem við höfum áhuga á að flytja inn og koma inn á íslenska markaðinn. Framboðið af Suður-Afrískum vínum hefur ekkert verið neitt rosalega mikið í Vínbúðinni hingað til þannig að vonandi getum við bætt úr því með því að koma fleiri flöskum í hillur þeirra."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Greint er frá því að fjárhagslegri endurskipulagningu Keahótela er nær lokið. Landsbankinn veitir félaginu frekara lánsfé sem og hlutafé.
  • Hipsum-haps í álitum dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti heldur áfram.
  • Tekjuskattur íslenskrar fjarskiptasamstæðu hækkaði um 130 milljónir vegna örlítillar gleymsku.
  • Rætt er við framkvæmdastjóra SAF og aðalhagfræðing Arion banka um áhrif bóluefnis.
  • Varma og Ístex hafa þróað nýtt íslenskt lambsullarband sem stingur ekki líkt og hefðbundin íslensk ull. Pop-up verslun með íslenskar ullarvörur opnar á næstunni.
  • Þrír Akureyringar standa að útgáfu borðspils sem á að brúa kynslóðabilið hjá fjölskyldum landsins.
  • Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir nýr stjórnarmaður hjá Deloitte í Danmörku segir frá hugðarefnum, lífinu í Danmörku og tæknilausnum.
  • Farið er yfir hversu langt þróunarferli á bóluefni fyrir kórónuveirufaraldrinum er komið og hversu miklar væntingar megi gera til þess.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um bakara og eftirlitsiðnaðinn.
  • Óðinn skrifar um Landakot og sveitarfélögin.