Sverrir Geirdal gengur til liðs við Auðnu tæknitorg og Evris sem viðskiptaþróunarstjóri og sérfræðingur á sviði upplýsingatækni og nýsköpunar. Bæði eru félögin staðsett í Íslenska sjávarklasanum.

Sverrir Geirdal er með MBA frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS), diplóma í Rekstrar og viðskiptafræði frá EHÍ ásamt diplóma í kerfisfræði frá EDB skólanum í Odense.  Hann hefur áralanga reynslu af fjármögnun nýsköpunarverkefna, fyrst hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og síðar á eigin vegum.

Sverrir rak eigið ráðgjafarfyrirtæki um langt árabil þar sem hann sinnti ráðgjöf í upplýsingatækni, stefnumótun, viðskiptaþróun og rekstri.  Sverrir hefur einnig sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði tölvu endurskoðunar og markvissri stjórnun stofngagna  fyrir mörg af stærstu fjármálafyrirtækum landsins. Síðustu tvö árin hefur Sverrir verið IT-Business partner hjá Marel þar sem hann brúaði bilið á milli viðskiptaeininga og upplýsingatækni á heimsvísu.

Auðna og Evris hafa undanfarin misseri unnið saman að því að efla íslenska nýsköpun og með ráðningu Sverris til fyrirtækjanna mun það samstarf aukast enn frekar sem félögin sjá fyrir sér að geti orðið hagsbóta fyrir nýsköpunarumhverfið í landinu.

Auðna tæknitorg ehf . er sameiginleg tækni- og þekkingarveita háskólanna og helstu rannsóknastofnana landsins með markmið að koma vísindum í vinnu. Hún tengir saman vísindasamfélagið, atvinnulíf og fjárfesta, sinnir hugverkavernd og nytjaleyfum fyrir stofnanirnar, hvetur til nýsköpunar og greinir tækifæri til verðmætasköpunar og finnur öflugu vísindastarfi á Íslandi farveg út í atvinnulífið og samfélagið. Auðna vinnur jafnframt með háskólum og rannsóknastofnunum innanlands og á Norðurlöndum að því að mæta Sjálfbærni markmiðum Sameinuðu Þjóðanna með vísindalegum lausnum.

Evris ehf er viðskiptafélagi (e. Business Partner) alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Inspiralia Group á Norðurlöndunum. Frá árinu 2016 hafa fyrirtækin verið leiðandi í að veita íslenskum fyrirtækjum og stofnunum í nýsköpun aðgang að erlendum styrkjum, fjárfestum og þekkingu til að þróa nýjar lausnir og vörur og koma þeim á erlenda markaði.

Á síðasta ári aðstoðuðu Evris og Inspiralia íslensk fyrirtæki við að sækja meira en einn milljarð íslenskra króna til nýsköpunar úr evrópskum og bandarískum samkeppnissjóðum. Nú hefur aðstoð við að sækja um styrki í breska sjóði bæst í flóru fyrirtækjanna.