Stangveiðifélag Reykjavíkur (SVFR) fær tækifæri til að tryggja sér áframhaldandi leigu á Norðurá en félagið hefur haft ána á leigu í áratugi. Félagsfundur í Veiðifélagi Norðurár hefur heimilað stjórn veiðifélagsins að ganga til viðræðna við SVFR.

Á félagsfundi í Veiðifélagi Norðurár sem fram fór á mánudagskvöld, var ákveðið að heimila stjórn veiðifélagsins að ganga til viðræðna við SVFR um nýjan leigusamning fyrir Norðurá á grundvelli tilboðs sem stjórn SVFR lagði fram fyrir nokkru. Í frétt á vef SVFR kemur fram að boðað hafi verið til fundarins eftir að SVFR lagði fram nýtt tilboð í ána. Síðastliðinn vetur stefndi í að Norðurá færi í almennt útboð, en núverandi leigusamningur SVFR rennur út haustið 2005. Búist er við að verð veiðileyfa muni hækka í kjölfar þess að gerður verði nýr leigusamningur um ána.