Frederik Reinfeldt, nýkjörinn forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að ríkisstjórnin muni ekki taka upp verndarstefnu þegar kemur að einkavæðingarferli ríkisfyrirtækja sem metin eru á margar billjónir króna. Reinfeldt segir að enginn verði útilokaður og að erlendum fjárfestum verði velkomið að taka þátt í ferlinu, sem stefnir í að verða mesta umbreytingaskeið í efnahagslífi Svíþjóð í umtalsverðan tíma, segir í frétt Financial Times.

Fyrsti áfanginn í einkavæðingu sænska ríkisins fer brátt að hefjast, en ríkið mun þá selja hluti sína í bönkum, fjarskiptafyrirtækjum og flugfélögum. Sænska ríkið vonast til að afla 150 milljarða sænskra króna á fyrstu þremur árum áætlunarinnar, eða um 1,5 billjóna íslenskra króna. Reinfeldt segir að ríkisstjórn sín sé staðfastari í trú sinni á frjáls viðskipti en Bandaríkin og aðrar þjóðir í Evrópu sem virðast vera að taka upp verndarstefnu á ný, en það hefur það verið að aukast að ríkisstjórnir reyni að koma í veg fyrir að erlendir fjárfestar kaupi hluti í ríkisreknum fyrirtækjum.

Áhugi erlendra fjárfesta er mikill, og hefur verið stöðugur straumur starfsmanna fjárfestingabanka síðan Reinfeldt tók við embætti, en fram að því höfðu jafnaðarmenn farið með völd í tólf ár.

Sænska ríkið á hluti í 57 fyrirtækjum, sem hafa um 200 þúsund manns í vinnu og eru metin á um 500 milljarða sænskra króna, eða um fimm billjónir íslenskra króna. Þar á meðal er 19,5% hlutur í Nordea bankanum, sem er sá stærsti á Norðurlöndunum, 45,3% hlutur í fjarskiptafyrirtækinu TeliaSonera, 6,7% hlut í rekstrarfélagi kauphallarinnar OMX og 21,4% hlutur í flugfélaginu SAS. Ríkið á einnig hluti í fasteignafyrirtækjum, lyfjafyrirtækjum og í V&S, sem framleiðir Absolut-vodkann. Ástralska fyrirtækið Constellation Brands og franska fyrirtækið Pernod-Ricard hafa bæði lýst yfir áhuga á að eignast Absolut merkið margfræga.

Sala á sænskum ríkisfyrirtækjum til erlendra aðila hefur áður verið gagnrýnd og má búast við því að þær gagnrýnisraddir heyrist nú aftur. Reinfeldt tekur fram að hver sala verði skoðuð sérstaklega út frá eigin forsendum og að hann muni tryggja að engin störf muni tapast í Svíþjóð vegna einkavæðingarinnar. Hann segir ríkistjórnina hafa mikla ábyrgð þegar litið sé til lengri tíma, og því væri æskilegt að sala muni leiða til atvinnusköpunar, frekar en öfugt. Reinfeldt segir að ríkið vilji fá sem mest fyrir hluti sína, en að sum fyrirtækjanna séu beintengd hagsmunum sænsku þjóðarinnar og gildi því ólíkar forsendur í hverju tilfelli.

Peningunum verður varið í að standa við kosningaloforð Reinfeldt um skattalækkanir og atvinnusköpun. Verkalýðssamtökin Ladsorganisationen, sem eru fulltrúi 15 verkalýðsfélaga sem telja 1,83 milljónir meðlima, hafa skipulagt mótmæli þann 14. desember til að mótmæla skerðingu á hlunnindum atvinnulausra. Reinfeldt segist virða rétt þeirra til að mótmæla og vilji ekki koma af stað illdeilum, en segir að hann hafi fullt umboð til að setja umbótaáætlun sína í framkvæmd, þar sem hann hafi meirihlutastjórn.

Sjálfstæðir greiningaraðilar í Svíþjóð segja að einkavæðingin ætti að auka framleiðslu, minnka atvinnuleysi og auka skattatekjur til lengri tíma.