*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 11. apríl 2017 16:33

Svíar glíma við sömu vandamál og Íslendingar

Alf Karlsson, ráðuneytisstjóri húsnæðismála í Svíþjóð, segir að Svíar þurfa yfir 700 þúsund íbúðir á næstu árum til að mæta húsnæðisþörf.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Svíar standa að miklu leyti frammi fyrir sömu vandamálum og Íslendingar í félagslega húsnæðiskerfinu. Þetta kom fram í máli Alf Karlsson, ráðuneytisstjóra húsnæðismála í Svíþjóð, sem fundaði í dag með Íbúðalánasjóði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og ASÍ. Ráðuneytisstjórinn vinnur nú að undirbúningi samnorræns ráðherrafundar þar sem fjallað verður um lausnir í húsnæðismálum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Svíar þurfa yfir 700 þúsund íbúðir á næstu árum til þess að mæta húsnæðisþörf og vilja þeir efla áætlanagerð sína og horfa meira til langs tíma. Tilgangur heimsóknarinnar er að skoða félagslega húsnæðiskerfið hér á landi.

„Á fundinum í dag, sem fram fór í húsnæði Íbúðalánasjóðs, var m.a. fjallað um hvernig fjölga megi leiguíbúðum og skapa hvata fyrir einkaaðila til slíks auk þess sem farið var yfir hvaða lausnir í húsnæðismálum hafa tekist vel og hverjar ekki. Rætt var um ýmiss konar stuðning við íbúðarkaup einstaklinga og hvernig hægt sé að einfalda eða greiða leiðina fyrir fjöldaframleiðslu á íbúðum og húsum. Á meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum voru fulltrúar frá Íbúðafélaginu Bjargi sem hyggst byggja 1.150 leiguheimili, sem er langtíma leiguhúsnæði á hagstæðum kjörum, á næstu 4 árum í Reykjavík og Hafnarfirði fyrir rúma 30 milljarða króna,“ segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóð.