Sænska ríkisstjórnin hyggst breyta vinnulöggjöfinni í kjölfarið á röðum langvarandi verkfallsaðgerða hafnarverkamanna í Gautaborg. Þetta kemur fram í frétt frá Samtökum atvinnulífsins . Aðgerðirnar hafa gert það að verkum að höfnin hefur einungis verið rekin á 60% afkastagetu.

Aðgerðirnar hafa valdið fjölda fyrirtækja miklu tjóni og hafa mörg þeirra kosið að nýta aðrar flutningsleiðir. Vinnumarkaðsráðherra Svíþjóðar, Ylva Johansson segir ástandið vera alvarlega ógn við sænskt efnahagslíf og störf í landinu.

Til að bregðast við ástandinu hyggst ríkisstjórnin styrkja hið sænska vinnumarkaðslíkan en frekar. Líkanið hefur í tvo áratugi stuðlað að stöðugleika í sænsku efnahagslífi og samfelldri kaupmáttaraukningu launa. Skipuð hefur verið nefnd sem mun hafa það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig líkanið geti áfram þjónað hagsmunum þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin hefur tilnefnt sérfræðing sem á að koma með tillögur að breytingum á lögum um verkfallsrétt þegar kjarasamningur er í gildi á viðkomandi sviði eða þegar ástæða verkfallsaðgerða er önnur en gerð kjarasamnings. Er vonast til þess að lagabreytingin taki gildi innan árs.

Deilan sjálf

Deilan á upptök sín í því að sænska vinnumarkaðslíkanið hefur ekki verið virt á hafnarsvæðinu. Deilan snýr að því að rekstraraðili hafnarsvæðisins er þegar gildan kjarasamning við landsfélag flutningaverkamanna. Þar af leiðandi getur rekstarfélag hafnarsvæðisins ekki undirritað samning við annað verkalýðsfélag. Á sama tíma krefst verkalýðsfélag hafnarverkamanna að gerður sé kjarasamningur við félagið og hefur því ítrekað boðað til verkfallsaðgerða.

Rekstrarfélag hafnarsvæðisins telur verkalýðsfélag hafnarverkamanna misnota verkfallsréttinn og hefur því krafist endurskoðunar á honum. Að þeirra mati ætti klofningsfélag á borð við verkalýðsfélag hafnarverkamanna ekki að hafa verkfallsrétt þegar í gildi er almennur kjarasamningur fyrir þessi störf.