Sænska ríkisstjórnin hefur lagt til við Riksdagen, þing landsins, að 495 milljóna evra lánalínu landsins til Íslands, jafngildi tæpra 82 milljarða króna, verði framlengt til loka þessa árs. Lánið var veitt sem hluti af stuðningi Norðurlandanna við Ísland í kjölfar þess að óskað var eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna

hrunsins. Sænska fréttaveitan TT greinir frá þessu og því að um helmingur lánalínunnar hafi þegar verið nýttur þannig að eftir standa um 247,5 milljónir evra sem Ísland hefur til ráðstöfunar út árið verði tillagan samþykkt. Ekki er greint frá því hversu lengi tillagan gæti verið í meðförum þingsins.