Stjórnarandstöðuflokkur jafnaðarmanna á sænska þinginu styður sölu ríkisins á hlut hins opinbera í norræna bankanum Nordea. Þetta er þvert á fyrri yfirlýsingar flokksmanna sem hafa setið í stjórnarandstöðu síðastliðin sex ár. Sænska ríkið á 13,5% hlut í Nordea, einum umsvifamesta banka Norðurlandanna.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um málið í dag og segir m.a. að ríkisstjórn Svíþjóðar leiti eftir því að selja eignir til að geta greitt niður skuldir hins opinbera á sama tíma og skattar eru lækkaðir. Á meðal annarra ríkishluta sem stjórnin hefur ýmist selt eða hefur ákveðið að selja eru ríkishlutur í fjarskiptafyrirtækinu TeliaSonera og Vin & Sprit, sem framleiðir Absolut-vodka. Ríkisstjórnin seldi hluta af eign sinni í Nordea í fyrravor.