Jóhann G. Jóhannsson þáði rúmlega 13 milljónir í ráðgjafargreiðslur frá Íbúðalánasjóði árin 2004 og 2005, á sama tíma og hann starfaði sem sviðsstjóri áhættustýringar Íbúðalánasjóðs. Jóhann var ráðinn sviðsstjóri áhættustýringar Íbúðalánasjóðs 11. mars 2004 samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar en áður hafði hann sinnt ráðgjafarstörfum fyrir sjóðinn frá desember 2003 samkvæmt tilkynningu til Kauphallar.

Formaði áhættustýringu ÍLS

Jóhann segist hafa verið ráðinn í verkefni af Íbúðalánasjóði 2003 þegar flokkum skuldabréfa Íbúðalánsjóðs var fækkað í fjóra í stað 20 en hann segir það hafa verið flókna aðgerð sem takist hafi ágætlega. "Verkefnið vatt svo upp á sig þegar bankarnir komu inn á Íbúðalánamarkað þannig að ég var látinn forma áhættustýringu og sjóðastýringu almennt. Síðan er ég ráðinn og í kjölfarið verða skipulagsbreytingar en það tekur tíma að klára það allt saman. Ég var ráðgjafi þar til kerfisbreytingin var gengin í gegn," segir Jóhann í samtali við Viðskiptablaðið. Skýringar greiðslanna frá Íbúðalánasjóði eru fjárstýring sem eru í samræmi við útskýringar Jóhanns á vinnu sinni fyrir sjóðinn.

Hæstu greiðslurnar 2004 til 2005

Samtals fengu Ekrur ehf. 29 milljónir í ráðgjafargreiðslur fyrir árin 2003 til 2006 og mest á árunum 2004 og 2005 þegar Jóhann starfaði sem sviðsstjóri áhættustýringar hjá sjóðnum. Íbúðalánasjóður skýrir frá ráðningu Jóhanns sem ráðgjafa til Kauphallar í desember 2003 og greinir svo frá ráðningu hans sem sviðsstjóra í mars 2004. Jóhann lét af störfum hjá Íbúðalánasjóði í september 2007. Jóhann vill ekki svara spurningum blaðamanns um hvort hann hafi þegið ráðgjafargreiðslur samhliða starfi sínu fyrir Íbúðalánasjóð og vísar í að hann sé búinn að útskýra mál sitt. Ráðgjafargreiðslurnar þáði hann í gegnum einkahlutafélagið Ekrur sem var alfarið í eigu hans og staðfestir Jóhann í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi jafnframt verið eini starfsmaður félagsins. Búið er að taka Ekrur ehf. til gjaldþrotaskipta.

Sjá nánari umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.