Fyrirtækið Hovering Trails hefur á undanförnum árum þróað svokallaða svífandi göngustíga. Um er að ræða sveigjanlegt og umhverfisvænt göngustígakerfi sem lágmarkar snertipunkta við jörðina og hlífir þannig viðkvæmum náttúruperlum við átroðningi. Samhliða því auðvelda stígarnir aðgengi fjölda fólks að vinsælum ferðamannastöðum. Frumgerð svífandi göngustíganna hefur þegar verið lögð í Hveradölum.

„Svífandi göngustígar eru sérstaklega áhugaverðir í umhverfi þar sem eru hraun, hverasvæði eða mýrar, þar sem aðstæður eru erfiðar og krafa er um raunverulegan möguleika á afturkræfni. Því var ákveðið að velja stað fyrir uppsetningu á frumgerð stíganna sem gerði einmitt fyrrnefndar kröfur," segir Birgir Þröstur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Hovering Trails.

„Þar sem frumgerðin heppnaðist einkar vel fékkst styrkur úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða árið 2019 til að halda áfram með verkefnið og leggja 100 metra langan stíg upp í dalinn. Eigendur og Framkvæmdasjóðurinn voru mjög ánægðir með útkomuna og var því sótt um og fenginn annar styrkur árið 2020 til að setja upp „svífandi" útsýnispalla og sex innfelld upplýsingaskilti. Þar sem áður var mjög hættulegt svæði og slys regluleg er nú öruggt stígakerfi sem veitir einstaka upplifun á flottu hverasvæði," bætir hann við.

Verið í þróun í tæpan áratug

Að sögn Birgis fæddist hugmyndin á bak við svífandi göngustíga Hovering Trails er teymið tók þátt í samkeppni um stígagerð á Þingvöllum sem haldin var árið 2012. „Þar var markmiðið einmitt að hanna göngustíga sem hlífa umhverfinu með sem bestum hætti. Okkar markmið var að búa til flotta lausn sem væri vel tæknilega hugsuð, með mikla burðargetu en samt fínleg þannig að það komist t.d. birta undir stígana og það fari sem minnst fyrir þeim í umhverfinu. Þannig væri inngrip göngustíganna inn í náttúruna sem minnst. Okkur gekk vel í þessari samkeppni og lentum í öðru sæti. Þá áttuðum við okkur á því að hugmyndin hafi verið góð."

Á þessum tíma hafi fleiri svipaðar samkeppnir um stígagerð við ferðamannastaði verið að fara af stað. „Því sáum við að það var full ástæða til að halda áfram að þróa göngustígalausnina okkar, sem gæti nýst á þessum ferðamannastöðum þar sem aðstæður eru oft krefjandi, og höfum gert það allar götur síðan," segir Birgir.

Birgir bendir á að einn helsti kostur vörunnar sé sá að það sé hægt að setja göngustígana upp allan ársins hring, sama hvernig viðrar. Göngustígarnir séu einfaldir í uppsetningu, mæti tilbúnir úr verksmiðjunni og einungis þurfi að bolta þá saman. Uppsetning þeirra taki aðeins nokkra daga, meðan hefðbundin göngustígagerð geti tekið margar vikur eða mánuði, með tilheyrandi jarðraski.

Þegar stígarnir séu svo fjarlægðir skilji þeir engin ummerki eða rask eftir sig. Auk þess sé hægt að endurnýta einingarnar og lítið mál að færa göngustígana til eftir þörfum, t.d. þegar hverasvæði breytir sér eða ef þjónustuhús svæðisins færist til.

Stefna á sókn erlendis

„Eftir þrotlausa þróunarvinnu síðustu ára erum við í raun fyrst núna að byrja að markaðssetja okkur hér innanlands," segir Birgir og bætir við að hann geri fastlega ráð fyrir að fleiri innlend verkefni muni fylgja í kjölfar uppsetningar svífandi göngustíga í Hveradölum. Þá segir hann næst á dagskrá að kynna vöruna til leiks á erlendum mörkuðum.

„Það er framtíðarmarkmið að koma vörunni okkar sem víðast um heim, enda henta göngustígarnir fyrir allar mögulegar aðstæður, jafnt á háhitasvæði sem og í ölpunum. Við höfum tryggt okkur einkaleyfi á þessu hugverki okkar og næst á dagskrá er að kynna vöruna erlendis. Við erum að prófa okkur áfram með vöruna á Íslandi við kjöraðstæður og teljum hana hafa heilmikið fram að færa. Það er mikil þörf fyrir þessa lausn víða um heim."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .