Ekki er hægt að draga þá ályktun sjálfkrafa að opinbera hlutafélagið Íslandspóstur (ÍSP) hafi gerst sekt um samkeppnisbrot þrátt fyrir að tilteknum fyrirmælum í sátt félagsins hafi ekki verið fylgt. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins (SE).

Fyrir tæplega þremur árum síðan undirrituðu ÍSP og SE sátt um aðgerðir til að bæta samkeppnisaðstæður á póstmarkaði. Á meðan rannsókn stóð, en áður en sáttameðferð hófst, benti eftirlitið ÍSP á að við gjaldskrá 51-2.000 gr. bréfa væri notast við „matskennda og huglæga“ mælikvarða við ákvörðun afsláttar sem gætu skekkt samkeppni.

Eftir að sáttameðferð hófst upplýsti ÍSP að fyrirhugað væri að leggja niður gjaldskrárflokkinn blöð og tímarit, sameina hann fyrrgreindum 51-2.000 gr. flokki, og fékk grænt ljós á það frá Póstog fjarskiptastofnun (PFS). Um þetta segir í sáttinni að „[ljóst sé] að gjaldskráin og þeir skilmálar sem lúta að henni gilda með almennum hætti. Með vísan til framanritaðs er jafnframt ljóst að PFS og ÍSP brugðust við þeim tilmælum sem SE setti fram í umsögn sinni í mars 2012 og ný og endurbætt gjaldskrá tók gildi í upphafi árs 2014.“

Með sáttinni var komið á fót sérstakri eftirlitsnefnd með henni en fyrsti fundur hennar var í júlí 2017. Á fyrsta fundi nefndarinnar upplýsir fulltrúi ÍSP í nefndinni að „umrædd sameining hefði ekki komið til framkvæmda og að ekki væri víst að úr henni yrði“. Nýverið tilkynnti ÍSP að fyrirhugað væri að hætta að dreifa fjölpósti og fella niður gjaldskrárflokkinn blöð og tímarit. Það er sex árum eftir að fyrirtækið tilkynnti SE að breytingin hefði tekið gildi kemur hún loks til framkvæmda.

„Við tókum eftir þessu við reglulega eftirfylgni en höfum ekki hingað til talið ástæðu til að aðhafast vegna þessa, enda felur umfjöllun um þetta í ákvörðuninni frá 2017 ekki skuldbindingu af háflu ÍSP heldur er verið að rekja efni kvartana, þessum áformum lýst og skilningi eftirlitsins á þeim tíma að breytingin hafi átt sér stað,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SE.

Spurður hvort það þjóni einhverjum tilgangi að láta sáttina innihalda slík ummæli ef afleiðingarnar eru litlar segir Páll Gunnar að þarna sé verið að vísa til skýringartexta en ekki ákvæða í sátt sem ÍSP skuldbatt sig til að fara eftir.

„Þótt ÍSP hafi ekki fært blöð og tímarit undir almennu gjaldskrána þá er ekki þar með hægt að draga sjálfkrafa þá ályktun að farið hafi verið á svig við skilyrði sáttarinnar. Við höfum ekki talið nauðsynlegt að hefja rannsókn vegna þessa og þá hafa okkur ekki borist kvartanir. Það verður að koma í ljós hvort það reynist nauðsynlegt á síðari stigum,“ segir Páll Gunnar.

Umrædd sátt var gerð í tíð eldri laga um póstþjónustu en ný lög tóku gildi um áramótin. Með þeim féll einkaréttur ríkisins, og þar með ÍSP, á dreifingu bréfa undir 50 gr. úr gildi. Ríkið útnefnir hins vegar alþjónustuveitanda sem ber að dreifa bréfum og bögglum undir 10 kg hvert á land sem er. Sú skylda hvílir á ÍSP til bráðabirgða.

„Í sáttinni kemur fram að skilyrði hennar verði endurskoðuð þegar einkarétturinn fellur niður. Það er vinna sem stendur yfir og við höfum óskað eftir sjónarmiðum ÍSP vegna þessa. Í framhaldi munum við taka afstöðu til þess að hvaða marki skilyrðin gilda áfram og munum eflaust óska sjónarmiða frá öðrum aðilum á markaði við þá vinnu,“ segir Páll Gunnar.

Sama verð um land allt

Í tilefni nýrra laga tók gildi, samhliða nýrri löggjöf, ný gjaldskrá Póstsins fyrir ýmsa vöruflokka. Samhliða var tekin ákvörðun um að hætta að dreifa fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu og í nærsveitum. Gjaldskrá ÍSP er sem fyrr lögbundin og ber að taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustu að viðbættum hæfilegum hagnaði. Í meðförum þingsins bættist hins vegar við að alþjónusta skuli standa öllum landsmönnum til boða á sama verði.

Athyglisvert er að skoða áhrif þess á gjaldskrána en dreifing á vörum innan höfuðborgarsvæðisins og í þyngdum utan alþjónustu hækka um 3% við breytinguna. Verð fyrir dreifingu böggla u t a n höfuð - borgar - svæðisins er hins vegar fært niður og er verðlækkunin á bilinu 13-37%. Svo dæmi sé tekið kostaði það áður tæpar 2.000 kr. að senda 8 kg pakka frá Reykjavík á pósthúsið á Vopnafirði en eftir breytinguna kostar það 1.441 kr. Hægt er að senda pakkann heim að dyrum hvert á land sem er fyrir flatar 360 kr., það er 290 kr. í vasa fyrirtækisins að frádregnum virðisaukaskatti.

Á þriðjudag birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) stöðuskjal vegna eftirlits með gjaldskrá alþjónustu. Þar kemur fram að stofnunin hyggist ekki grípa inn í gjaldskrána en tekur hins vegar fram að heildarendurskoðun á gjaldskrá alþjónustu geti ekki beðið. Komi ekki fram athugasemdir verður ÍSP gert skylt að birta endurskoðaða gjaldskrá fyrir 5. maí 2020. Í bréfi PFS segir að ekki sé tekin afstaða til þess hvort gjaldskráin sé í samræmi við samkeppnislög. Enn fremur stendur yfir hjá stofnuninni mat á alþjónustukostnaði ÍSP en fyrirtækið fékk til bráðabirgða 250 milljónir króna til að standa straum af honum. Fyrirtækið sjálft metur kostnað fyrir árið á 490 milljónir króna.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .