Seðlabankinn birti í gær ítarlega skýrslu um skuldastöðu þjóðarinnar og þær framtíðarhorfur sem blasa við þegar búið er að hreinsa efnahagsreikning þjóðarinnar. Athygli vekur hversu gríðarlega sterk áhrif einstakt fyrirtæki, Actavis, hefur á bæði brúttó og nettó skuldastöðu við útlönd en ekki síður á viðskiptajöfnuð. Fyrirtækið skuldar um 70% af VLF og virðast litlar eignir koma þar á móti (um 20% af VLF). Neikvæðu áhrifin af þessu eina fyrirtæki á hreina skuldastöðu Íslands eru því um 50% af VLF, eða um 775 milljarðar króna. Ef fyrirtækið er tekið út er hrein skuldastaða landsins því neikvæð um 23% af VLF (sjá að neðan).

Þetta segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag þar sem fjallað er um skýrslu átta hagfræðinga Seðlabanka Íslands.

Skýrir styrkingu krónunnar á síðustu mánuðum ársins 2010

Segir að niðurstaða skýrslunnar gefi til kynna að svigrúm Seðlabankans til gjaldeyriskaupa verði umtalsvert á næstu árum, að því gefnu að allur sá gjaldeyrir sem verður til í gegnum væntan viðskiptaafgang skili sér til landsins. „Hafi einhverjir klórað sér í hausnum vegna ríflega 13% styrkingar krónunnar á síðustu mánuðum ársins 2010, þá er nú komin ágætis skýring á þeirri þróun.

Í skýrslunni er a) byrjað á því að meta hver eignastaðan er án banka í slitameðferð - en í dag teljast bæði nýju og föllnu bankarnir til innlendra lögaðila. M.ö.o. hlutur erlendra kröfuhafa í nýju bönkunum bókast ekki sem skuld þjóðarinnar við erlendan aðila. Svo b) er búið reikna dæmið upp á nýtt m.v. að skuldauppgjörið hafi átt sér stað og erlendir aðilar hafi fengið eignarhluti í nýju bönkunum og fjármálagerninga milli gamla og Nýja Landsbankans í sínar hendur.  Að lokum er svo búið c) að leiðrétta b) fyrir þeim áhrifum sem Actavis hefur á þetta allt saman.“

Þá tekur greiningardeildin saman helstu atriði um viðskiptajöfnuð og um hreina skuldastöðu við útlönd:

Helstu atriði um viðskiptajöfnuð:

Viðskiptajöfnuður
Viðskiptajöfnuður
© None (None)

Mynd úr Markaðspunktum. Stækka má myndina með því að smella á hana.



  • Með bönkum í slitameðferð var viðskiptajöfnuður neikvæður um 3,7% af VLF árið 2010.

  • Þegar búið er að gera ráð fyrir hlut erlendra kröfuhafa í gömlu bönkunum var viðskiptajöfnuðurinn hinsvegar jákvæður um 6,4% af VLF (ástæðan er sú að áfallnar vaxtatekjur og –gjöld, sem verða greidd að litlu leyti, eru hér teknar út úr tölunum).

  • Þegar ennfremur er búið að taka Actavis út úr sviðsmyndinni er viðskiptaafgangurinn hvorki meira né minna en 13% af VLF sem gera um 200 ma.kr. á ári (áfallnir vextir umtalsvert hærri en vaxtatekjur).

  • Ef matið í skýrslunni stenst er ljóst að afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum mun duga til að standa undir vaxta- og arðgreiðslum til erlendra aðila ásamt því að töluvert svigrúm verður til að greiða niður skuldir þjóðarbúsins

Helstu atriði um hreina skuldastöðu við útlönd:

Hrein staða við útlönd
Hrein staða við útlönd
© None (None)

Mynd úr Markaðspunktum. Stækka má myndina með því að smella á hana.


  • Án banka í slitameðferð er hreina staðan við útlönd neikvæð um 28% af VLF (a) Þegar erlendir kröfuhafa fá sinn hluta greiddan úr þrotabúunum verður staðan neikvæð um 72% af VLF (b)

  • Þegar búið er að taka Actavis út fyrir sviga birtir aftur til, þ.e. staðan er einungis neikvæð um 23% af VLF. Færa má fyrir því rök að þessi samanburður gefi betri mynd af skuldaþoli landsins (þ.e. ef Actavis er tekið út) þar sem fyrirtækið fær nær allar sínar tekjur erlendis frá og skuldirnar eru við erlenda fjármálastofnun.

  • Þótt hrein erlend staða þjóðarbúsins muni batna þegar á heildina er litið (og frá því sem áður var) mun innihald skuldanna versna að því leyti að stærri hluti þeirra felst í skuldum hins opinbera sem hvorki á nægar erlendar eignir til að standa undir vöxtum af skuldinni né á þess von að skapa útflutningstekjur til að standa undir þeim með beinum hætti.

  • Til upprifjunar voru skuldir hins opinbera í lok 3. ársjórðungs 2010 um 900 milljarðar. Orkufyrirtæki í eigu hins opinbera skulduðu um 570 ma.kr. (Landsvirkjun hefur reyndar stærstan hluta tekna sinna í erlendri mynt og OR um 20% af tekjum)

  • Hinsvegar gefa tölur um væntan viðskiptaafgang vísbendingu um að nægjanlega mikið skapist af gjaldeyri á næstu árum til að greiða megi af þessum skuldum (án þess að það valdi gengisveikingu)