Í efnahagslegu tilliti er því miður lítið í nýjasta aðgerðapakka stjórnvalda, sem kynntur var í vikunni. Þetta segir Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

„Þetta er ekki nóg og í engu samhengi við það sem er að gerast og er ég þá sérstaklega að tala um ferðaþjónustuna,“ segir Kristrún. „Ríkið er tilbúið að veita smærri fyrirtækjum samtals tæplega 30 milljarða lán með 100% ríkisábyrgð og síðan er það tilbúið veita 70% ríkisábyrgð vegna 80 milljarða brúarlána. Það er sem sagt tilbúið að borga stórar fjárhæðir þegar fyrirtækin eru kannski farin í gjaldþrot og hætt að borga skatta og gjöld og veita fólki atvinnu. Það hefði verið miklu skynsamlegra að veita beina styrki. Norðmenn, Danir, Þjóðverjar og fleiri þjóðir eru veita fyrirtækjum styrki og þetta eru þjóðir sem eru ekki nándar nærri jafn háðar ferðaþjónustu og við.“

Kristrún blæs á gagnrýnisraddir þess efnis að ríkið geti ekki styrkt fyrirtæki beint því það sé of áhættusamt. Hún segir þetta ekki eiga við í dag.

„Stór hluti af þessum peningum hringsólar í kerfinu og endar aftur hjá ríkinu. Þetta er ekki tapaður peningur á meðan hann er í umferð. Ég held að það séu mikil mistök fólgin í því að veita þessum fyrirtækjum ekki líflínu í nokkrar vikur eða út sumarið, þar til við áttum okkur á myndinni. Þetta eru náttúruhamfarir sem ganga yfir núna, ekki hefðbundin hagsveifla.

Átján mánaða frysting á afborgunum með ríkisábyrgð er líka engan veginn nóg. Fyrirtækin eiga sem sagt að byrja að borga til baka haustið 2021, kannski rétt í þann mund sem þau eru farin að sjá til lands. Þú segir ekki við fólk sem missir húsið sitt í náttúruhamförum að það fái lán til að endurbyggja það.“

Það vantar pening inn í kerfið

Að sögn Kristrúnar hefur alltof mikil orka farið í að velta því fyrir sér hvernig eigi að fjármagna aðgerðirnar og hver eigi að fá hvað.

„Við erum með ríkissjóð sem skuldar nánast ekki neitt,“ segir hún. „Þú finnur varla þróað land sem er í sömu stöðu. Ríkissjóður gæti tekið á sig 400 milljarða en væri samt í betri stöðu en Þýskaland. Það er verið að tala um að mögulega geti aukin skuldsetning haft áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs. Eina lánshæfismatið sem skiptir máli er í erlendum gjaldmiðli og það eru engar erlendar skuldir hér að ráði og við erum ekki að fara að taka erlend lán. Við erum að fara að prenta krónur og það er svigrúm til þess. Það er slaki í kerfinu, lítil verðbólguhætta sem stendur og lítið lausafé í kerfinu — það vantar pening inn í það.“

Kristrún segir að eftir síðustu kreppu séu allir mjög uppteknir af því að ríkissjóður verði rekinn í núlli og skuldir greiddar niður. „Það er auðvitað hið besta mál en þetta á ekki við núna. Núna reynir á hið opinbera og það þarf að stíga fram af krafti. Ef ekkert er gert þá verður hvort sem er tekjuhrun hjá ríkissjóði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.