Stöðvun varð á áratugarlangri fasteignaverðsuppsveiflu í Svíþjóð á árinu 2008 sem staðið hafði linnulítið frá 1997. Varð bæði verðfall á leigumarkaði sem og umtalsverður sölusamdráttur nýrra fasteigna á síðasta ári samkvæmt úttekt Global Property Guide (GPG). Stuðst er við tölur hagstofu Svíþjóðar. Verðfallið nú er þó ekki nærri eins mikið nú og varð í efnahagskreppunni í Svíþjóð á árunum 1990 til 1993.

Auk verðfalls fasteigna og á húsaleigu, þá varð líkt og hér mikill samdráttur í byggingu nýrra íbúða. Verðfallið hefur þó ekki orðið mjög mikið, en raunverðslækkun var um 3,7% á árunu 2008 fram að fyrsta ársfjórðungi 2009. Verðfall varð þó meira á Stór-Stokkhólssvæðinu, eða 6,3% að nafnvirði, eða um 7% þegar tillit hefur verið tekið til verðbólgu.

Að meðaltali hefur verð á fasteignum í Svíþjóð fallið minna á fyrsta ársfjórðungi 2009, en á sama tíma í fyrra eða um 2,9% á móti 5,3%. Á stór-Stokkhólssvæðinu var verðfallið 7,03% á fyrsta ársfjórðungi 2009 á móti 8,33% verðfalli á sama tímabili 2008.

Staðan er þó talsvert betri á sumum svæðum. Um miðbik norður Svíþjóðar (Central Norrland) hækkaði fasteignaverð t.d. um 1,2% og um heil 11,3% á efra Norrland svæðinu.

Þrátt fyrir bætta stöðu telja sérfræðingar GPG að fasteignamarkaðurinn í Svíþjóð muni verða veikburða enn um sinn. Bent er á að í öllum landshlutum hafi orðið mikill samdráttur í sölu nýrra húsa, eða um 22-35%. Þannig fækkaði seldum fasteignum á landsvísu úr um 15.000 í hverjum ársfjórðungi á árunum 2004 til 2008 í 8.811 eignir á fyrsta ársfjórðungi 2009.