Sænsk stjórnvöld hafa ákveðið að lána bílaframleiðendunum Volvo og Saab um 28 milljarða sænskra króna (um 2,3 milljarður Bandaríkjadala) til að koma þeim til aðstoðar í ljósi minnkandi sölu og rekstrarerfiðleika þeirra.

Björgunaraðgerðir Svíanna kemur í kjölfar þess að fulltrúardeild Bandaríkjaþings samþykkti að veita bandarísku bílaframleiðendunum Ford, Chrysler og GM um 14 milljarða dala lán.

Volvo og Saab höfðu óskað eftir fyrirgreiðslu yfirvalda vegna vandræða eigenda þeirra, sem eru einmitt bandarískir bílaframleiðendur en Volvo er í eigu Ford og Saab í eigu General Motors.

Auk lánsins hafa stjórnvöld heitið því að verja allt að 3 milljörðum sænskra króna í þróunarverkefni og rannsóknir tengdum bílaiðnaði.

Sænska ríkisstjórnin hefur þegar sagt að ekki komi til greina að þjóðnýta eða kaupa bílaframleiðendurna.

„Við eigum ekki að eiga fyrirtæki,“ sagði Anders Borg, fjármálaráðherra á blaðamannafundi í morgun.

„Hins vegar verðum við, í ljósi efnahagsaðstæðna, að koma til móts við bílaiðnaðinn hvað best við getum.“

Bílaframleiðsla í Svíþjóð telur um 15% af öllum útflutningi landsins. Þá starfa um 140 þúsund manns við bílaiðnað eða tengdum iðnaði hjá um 700  fyrirtækjum.