Seðlabanki Svíþjóðar, Riksbank lækkaði í gær stýrivexti sína niður um 25 punkta, úr 0,5% í 0,25%.

Í rökstuðningi bankans kom fram að bankinn óttast frekari samdrátt á mörkuðum og því væri ráð að lækka stýrivexti enn frekar. Á sama tíma gaf Riksbank út svartsýna efnahagsspá sem nær út árið 2010.

Sænskir fjölmiðlar segja bæði stýrivaxtaákvörðunina og eins efnahagsspá bankans koma á óvart og bankinn gefi heldur dökka mynd af efnahagsástandi landsins. Þó sé augljóst, eins og fram kom í spá Riksbank, að frekari vandræði banka og fjármálafyrirtækja í Eystrasaltsríkjunum geti valdið sænskum bönkum töluverðum vandræðum þar sem bæði fjárfestingar þeirra og lánveitingar í ríkjunum eru gífurlegar.  (Um þetta hefur áður verið fjallað hér á vb.is og má sjá í tengdum fréttum hér að neðan.)

Breska blaðið Telegraph hefur eftir Jacques Cailloux, hagfræðing hjá RBS að Riksbank sé augljóslega að undirbúa sig undir erfiða tíma framundan, í það minnst næstu 18-24 mánuði. Hann segir þó að enn sé of snemmt að spá fyrir um bankahrun í Svíþjóð en Riksbank ætli sér þó að vera undir allt búinn.

Til gamans má geta að Riksbank er elsti seðlabanki heims eða 350 ára, nokkrum árum eldri en Englandsbanki, en stýrivextir hafa aldrei verið jafn lágir í Svíþjóð og þeir eru nú.