Uppkaup Glitnis á Fischer Partners í Svíþjóð marka innkomu Glitnis á sænskan markað en áhersla Glitnis á Norðurlöndum hefur hingað til verið að mestu leyti bundin við Noreg sem Glitnir skilgreinir sem heimamarkað sinn með Íslandi.

Jón Diðrik Jónsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Glitnis, segir að Glitnir telji sig geta orðið einn af stærstu aðilum í viðskiptum á sænskum markaði og að bankinn komi til með að stækka töluvert í Svíþjóð á næstunni á afmörkuðum sviðum.

"Uppkaup okkar á Fischer Partners eru fyrstu kaupin á þessum markaði en við munum koma til með að leita frekari tækifæra þar," segir Jón Diðrik. Hann tekur þó fram að Glitnir hafi ekki uppi áform um að gera Svíþjóð að heimamarkaði sínum.

"Það er rétt að við komum til með að sýna Svíþjóð aukna athygli á næstunni. Í kjölfar þess að Svíar kusu sér nýja ríkisstjórn og einkavæðingar á mörgum sviðum er að vænta eru mikil tækifæri fyrir bankastarfsemi í Svíþjóð," segir Jón Diðrik.

Jón Diðrik segir í viðtali við Viðskiptablaðið að hann sjái fyrir sér að vöxtur bankans á næstu árum verði að mestu leyti á fjárfestinga- og fyrirtækjasviði bankans. Sú starfsemi bankans er nú í örum vexti en á þessu ári hafa stór verkefni á sviði fyrirtækjaráðgjafar blásið upp þóknanatekjur bankans sem námu 5,1 milljarði króna á þriðja ársfjórðungi. Á fyrstu níu mánuðum ársins nema þóknanatekjur bankans samtals 16,6 milljörðum sem er nær tvöfalt meira en sambærilegar tekjur fyrir allt síðasta ár.

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.