Ætla má að bótasvik í almannatryggingakerfinu geti numið allt að 3,4 milljörðum króna á ári, að því er segir í frétt á vef Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun telur að efla þurfi eftirlit á þessu sviði, m.a. með því að rýmka lagaheimildir Tryggingastofnunar til að afla og vinna með persónuupplýsingar. Þá eigi að rýmka heimildir stofnunarinnar til að beita viðurlögum við bótasvikum. Mikilvægt sé að viðurlög séu þannig að þau fæli fólk frá því að reyna að svíkja út bætur.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum í almannatryggingakerfinu. Fram kemur að á árunum 2011–2012 stöðvaði stofnunin óréttmætar greiðslur sem námu samtals tæplega 100 milljónum króna á ársgundvelli. Ekki liggur fyrir mat á ætluðu umfangi bótasvika hér á landi en í Danmörku er áætlað að þau nemi á bilinu 3–5% af heildarfjárhæð bótagreiðslna. Sé miðað við þetta hlutfall má ætla að bótasvik hér nemi í heild 2–3,4 milljörðum króna á ári. Talið er að hætta á svikum eða mistökum við bótagreiðslur sé einkum tengd upplýsingagjöf fólks um búsetu, hjúskaparstöðu og tekjur. Þannig eru dæmi um að foreldrar sem eru í sambúð skrái sig sem einstæða til að fá hærri greiðslur en þeir eiga rétt á.

Ríkisendurskoðun telur að Tryggingastofnun nýti ekki til fulls þær lagaheimildir sem hún hefur til eftirlits með bótagreiðslum en einnig sé mikilvægt að styrkja þessar heimildir. Eins og staðan er nú hefur Tryggingastofnun takmarkaðan aðgang að persónuupplýsingum sem máli skipta við ákvörðun bótaréttar. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að breyta lögum til að rýmka þennan aðgang.

Fram kemur að bótasvik hér á landi séu sjaldan kærð til lögreglu og að greiðsluþegi hafi aldrei hlotið dóm í slíku máli. Mikilvægt sé að viðurlög séu með þeim hætti að þau fæli fólk frá því að reyna að svíkja út bætur. Í þessu sambandi leggur Ríkisendurskoðun til að Tryggingastofnun fái heimild til að ljúka sem flestum málum af þessu tagi með því að leggja á stjórnvaldssekt, svipta fólk bótarétti eða með öðrum viðurlögum. Stofnunin myndi þá aðeins vísa málum til lögreglu ef grunur væri um skipulögð eða stórfelld svik. Þá telur Ríkisendurskoðun að Tryggingastofnun þurfi að skilgreina bótasvik og mistök við bótagreiðslur með formlegum hætti, meta umfang og hættu á slíku eftir bótaflokkum og þróa mælikvarða á árangur eftirlitsins.