Borið hefur á því síðustu daga að erlendir svikahrappar hringi í Íslendinga, kynni sig sem starfsmenn Microsoft og tilkynni þeim að það sé vírus í tölvum þeirra. Til að útrýma vírusnum verði fólk að opna ákveðna vefsíðu og hala niður vírusvarnarforriti. Forritið gegnir í raun þveröfugum tilgangi, um er að ræða vírus sem gefur þessum óprúttnu aðilum algert vald yfir tölvunum og geta þeir í kjölfarið valdið fólki fjárhagslegu tjóni. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Tilgangur svikahrappanna kann að vera af ýmsum toga: Að fylgjast með hegðun tölvueigendanna og mögulega selja óprúttnum fyrirtækjum upplýsingarnar, stela leyfislyklum að keyptum forritum og síðast en ekki síst komast yfir greiðslukortaupplýsingar og notendanöfn og lykilorð í heimabanka. Þannig geta svindlararnir mögulega valdið fólki stórvægilegu fjárhagslegu tjóni. Eru því miður til fjölmörg dæmi um að fólk hafi glatað háum upphæðum í svindlum á borð við þetta.

Ekki er vitað fyrir víst í hversu marga hefur verið hringt hér á landi eða hversu margir hafa látið gabbast en á meðal þeirra sem hafa fengið þessi símtöl eru íslenskir starfsmenn Microsoft. Þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á svindlurunum ættu að láta þjónustuaðila yfirfara og hreinsa tölvurnar sínar umsvifalaust, jafnvel þótt þær virðist í stakasta lagi.

Auðvelt er fyrir óprúttna einstaklinga að komast yfir símanúmer Íslendinga og hvetur Microsoft fólk til að vera á varðbergi. Fyrirtækið rekur sérstaka skrifstofu í Reykjavík en þar vinna eingöngu Íslendingar og þeir hringja aldrei í fólk nema það hafi sérstaklega óskað eftir því.