Sagan segir okkur að ferðaþjónustufyrirtæki fari vanalega í þrot í nóvember. Fyrirtæki hafa nýtt sér uppgripið í sumar en munu taka stöðuna á ný þegar líður á haustið enda óvíst að það dugi til, segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Viðbúið sé að hálfgert svikalogn ríki þessa dagana.

Sem kunnugt er þornuðu tekjulindir ferðaþjónustunnar upp vegna ferðatakmarkana sem fylgdu ferðalagi COVID-19 farsóttarinnar. Ljóst var að sumarið – sem vanalega hefur verið vertíð fyrir rekstraraðila í greininni – yrði einnig í mýflugumynd miðað við undanfarin ár. Íslendingar voru því hvattir til þess að ferðast um landið eins og kostur var til að bjarga því sem bjargað yrði. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og í sumar hafa fregnir borist af barmafullum hótelum, biðröðum á baðstöðum og frávísunum á tjaldstæðum.

„Íslendingar eru duglegir við að veita sér vel í mat og drykk og verið mun duglegri við að nýta sér gistiþjónustu og afþreyingu heldur en undanfarin ár. Það hefur verið mikil aukning og er það vel. Vonandi heldur það áfram inn í næstu ár. Staðreyndin er hins vegar sú að það segir ekki nema hálfa söguna,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF.

Jóhannes bendir á að þótt fólk hafi streymt á landsbyggðina þá sé hótelmarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu í algeru frosti. Sömu sögu sé að segja af fyrirtækjum sem erlendir ferðamenn kaupa þjónustu af en Íslendingar nýta sér ekki. Í því samhengi bendir hann á hópferðafyrirtæki og ferðaskrifstofur. Nokkuð hafi einnig borið á því að ekki hafi fengist vinnuafl í allar stöður fyrir sumartímann þar sem fólk hafi ekki viljað hverfa af bótum.

Hver verða á vetur á setjandi?

„Sumarið hefur gengið betur en búist var við, sem eru frábærar fréttir, enda gerðu áætlanir margra ráð fyrir núll tekjum. En jafnvel þótt Íslendingar hefðu eytt tvöfalt meira en í venjulegu árferði þá hefði það engan veginn dugað til að fylla upp í gatið sem erlendi ferðamaðurinn skilur eftir sig. Til þess hefðu Íslendingar almennt þurft að verja fimmfalt meiri peningi innanlands,“ segir Jóhannes Þór.

Þá hafi einnig færst í vöxt að fyrirtæki hafi boðið upp á hin ýmsu tilboð til að fá til sín viðskiptavini og hafa fjölmargir fært sér þau í nyt. Í sumum tilfellum séu verðin hins vegar minna en helmingur af því sem vant er í hefðbundnu árferði. Viðbúið er að einhver þeirra séu algjörlega ósjálfbær.

„Þótt menn skili síðustu mánuðum á núllinu þá bíður veturinn handan við hornið. Almennt safna fyrirtækin reiðufjárforða yfir sumarið til að þrauka vetrarmánuðina. Á afskaplega mörgum stöðum hefur það ekki tekist, engir peningar eru til fyrir komandi mánuði og það sem blasir við er gríðarlega flókið viðfangsefni,“ segir Jóhannes.

Síðustu ár hefur verið algengast að fyrirtæki í ferðaþjónustu fari í gjaldþrot í kringum nóvember en við það tímamark er lausafé félaga í greiðslukröggum oft uppurið og ekki til fjármunir til að greiða reikninga mánaðarins. Haustið mun skera úr um hvaða fyrirtæki hafa bolmagn til að halda áfram. Fyrir önnur væri skynsamlegast að nýta sér greiðsluskjól og leggjast í híði fram að næstu vertíð.

„Við vitum það hins vegar að þótt menn loki þá halda skuldirnar áfram að tikka og ef menn sjá ekki fram á að tekjur næsta sumars dugi til að halda í horfinu gæti verið skynsamleg leið að fara í þrot og byrja upp á nýtt,“ segir Jóhannes. Ekki sé gefið að fólk muni endilega taka upp þráðinn þar sem honum sleppir enda einhverjir sem hafa lagt heimilið að veði fyrir rekstrinum. Það sé hins vegar afar slæmt ef of mörg félög rúlli því greinin þurfi að vera kvik og tilbúin í slaginn þegar allt kemst í samt horf á ný.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .