Kristín Pétursdótti, forstjóri Mentor segir sterkt gengi íslensku krónunnar grafalvarlegt og telur mikilvægt að ráðast að rótum vandans og skipta um gjaldmiðil. Svikalogn umlyki krónuna og þegar kemur að því að hún veikist aftur og verðbólgan fari af stað þá muni koma annað hljóð í strokkinn hjá landsmönnum.

„Fyrir fyrirtæki eins og okkar, sem er með stærstan hluta af tekjum erlendis frá, þá hefur þessi sterka króna náttúrlega alveg gríðarleg neikvæð áhrif. Stærsti hluti af okkar hugbúnaðarteymi er staðsettur hér á landi en í dag er það þannig að ef við bætum við okkur fólki þá ráðum við það í Bretlandi. Þetta er orðinn svo gríðarlegur munur og þetta er viðvarandi vandamál fyrir öll tæknifyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki og útflutningsfyrirtæki.

Eins er þetta verulegt áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag ef við viljum byggja upp hér öflugan tæknigeira og þekkingariðnað.Ég held að það sé komið meira en ár síðan við réðum Íslending í hugbúnaðarteymið og ég heyri þetta mjög víða hjá tæknifyrirtækjum og ég veit að mörg fyrirtæki eru jafnvel að hugsa um að flytja starfsemi sína úr landi, þó að það sé ekki neitt sem er á döfinni hjá okkur.“

Forsenda fyrir því að fá erlendan banka inn á markaðinn

Hefur einhverja skoðun á því hvernig og þá hvort það eigi að reyna að bregðast við þessari styrkingu krónunnar?

„Ég held að það verði að ráðast að rótum vandans. Inngrip Seðlabankans eða eitthvað slíkt er aldrei neitt annað en skammtímalausn. Ég hef aldrei legið á þeirri skoðun að ég tel að við þurfum að taka upp stærri gjaldmiðil og ég tel að það sé ekki fræðilegur möguleiki að gera það einhliða. Það þarf að gerast í samvinnu við viðkomandi seðlabanka og stjórnvöld og þar af leiðandi er það bara evran sem er í boði. Ég held að þetta sé vandi sem við verðum að fara að horfast í augu við enda snýr hann að öllum útflutningsfyrirtækjunum, nýsköpunarfyrirtækjunum, öllum rekstri og ekki síst heimilunum.

Það eru margir sem tala um mikilvægi þess að fá erlenda banka til landsins til þess að auka samkeppni og lækka vexti og annað slíkt, en ég held að það komi enginn banki til landsins á meðan við erum í krónuhagkerfinu. Engum erlendum banka dettur í hug að starfa á markaði með örmynt sem er ekki gjaldgeng í alþjóðlegum viðskiptum. Ég tel hins vegar að það myndi breytast ef við myndum taka upp alþjóðlegan gjaldmiðil.“

Nú er enginn í bankakerfinu að tala fyrir því að taka upp annan gjaldmiðil og stjórnmálaflokkarnir eru fæstir með það á stefnuskrá sinni – af hverju hafa ekki fleiri áhuga á að ræða þessi mál?

„Ég spyr mig að þessu sjálf því að ég veit að það eru ofsalega margir sem standa í rekstri sem eru þessar skoðunar. Mér finnst í raun skrítið að almenningur hafi ekki tekið þetta samtal lengra. En ástæðan er líklega sú að almenningi líður vel með þessa sterku krónu, lága verðbólgu og mikinn kaupmátt erlendis. Að mínu viti þá er þetta svikalogn, það kemur að því að krónan veikist aftur, verðbólgan fer af stað og þá mun koma annað hljóð í strokkinn. Það líður öllum vel í partýinu en þetta ástand er ekki sjálfbært og getur ekki varað til framtíðar.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.